145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Opinber hlutafélög voru leidd hér í lög árið 2006. Tilgangurinn átti að vera sá að bæta aðgengi almennings og annarra að upplýsingum um hlutafélögin. Ohf.-formið hefur að mestu verið notað þegar ríkisstofnunum hefur verið breytt í opinber hlutafélög. Þeirri breytingu fylgir meðal annars að stjórnsýslulög, þ.e. lög um upplýsingaskyldu og lög um réttindi opinberra starfsmanna, hætta að gilda um viðkomandi stofnun. Gagnrýnt hefur verið að ohf.-væðingin á ríkisfyrirtækjum geti bitnað á réttindum starfsmanna og minnkað gegnsæi í rekstrinum. Dæmi um opinber hlutafélög eru: Isavia, Rarik, Ríkisútvarpið, Orkubú Vestfjarða, Matís og Lánasjóður sveitarfélaga. (VigH: Íslandspóstur.)

Í dag mun Alþingi afgreiða tillögur um stjórn RÚV sem endurspegla styrk þingflokka Alþingis. Fyrirkomulag gagnvart skipun í stjórn annarra ohf.-ríkisfyrirtækja er mismunandi. Ég kalla því eftir því að fjármálaráðherra geri þinginu grein fyrir því hvernig hann hyggst skipa í stjórn Orkubús Vestfjarða, sem heldur aðalfund sinn 12. maí næstkomandi. Verður leitað til annarra flokka varðandi tilnefningar í stjórn eða munu stjórnarflokkarnir eingöngu skipa sitt fólk?

Mér finnst mjög mikilvægt að stjórnir ohf.-fyrirtækja séu lýðræðislega skipaðar og að ferlið sé gegnsætt. Ég vil líka vekja athygli á að ákvarðanir stjórnar Orkubús Vestfjarða hafa sætt mikilli gagnrýni og þingflokkar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar hafa farið fram á úttekt Ríkisendurskoðunar á tilteknum þáttum í stjórn Orkubús Vestfjarða. Eftirlitsskylda Alþingis með góðum stjórnsýsluháttum á ekki að hverfa þó að um opinber hlutafélög sé að ræða. Því er mikilvægt að opinber hlutafélög gegni sínu hlutverki þannig að allt sé uppi á borðinu og (Forseti hringir.) góðir stjórnsýsluhættir viðhafðir.


Efnisorð er vísa í ræðuna