145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þetta hefur verið mjög áhugaverð umræða. En vakið hefur athygli ný þjóðhagsspá frá hagdeild Alþýðusambands Íslands fyrir næstu tvö árin þar sem eru mjög gleðilegar tölur. Þar er gert ráð fyrir meiri hagvexti en við höfum séð í spám að undanförnu. Því ber að fagna. Það er alveg ljóst að fjárfestingar eru að aukast og útflutningstekjur okkar eru að aukast. Það er ljóst að bjart er fram undan í íslensku efnahagslífi og nú er það okkar sem hér sitjum að halda vel á spilunum þannig að við í þinginu mótum þær leikreglur sem atvinnulífið og við öll spilum eftir og að við reynum að einfalda umhverfi þeirra fyrirtækja sem eru að reyna að hasla sér völl og við reynum að halda betur utan um þá stóru atvinnugrein sem fer sífellt stækkandi sem er ferðaþjónusta. Auðvitað höfum við öll séð hversu mikilvægt það er að vera með skýrar leikreglur, t.d. hvað varðar gjaldtöku á ferðamannastöðum o.s.frv.

Mig langar aðeins að koma inn á fund allsherjar- og menntamálanefndar í morgun þar sem við fengum fulltrúa frá stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna, SÍNE og menntamálaráðuneytisins til að ræða aðeins við okkur um þær breytingar sem hafa verið ræddar hér fyrr í dag varðandi námslán til íslenskra nema sem stunda nám erlendis. Unnin hefur verið mikil greiningarvinna til að reyna að komast að því hver raunframfærsluþörfin er eftir löndum. Það er stjórn LÍN sem tekur þá ákvörðun að vinna þetta mat og aðferðafræðin er ákveðin þar. Við fórum ágætlega yfir þetta í nefndinni í morgun. Það er ljóst að með þetta eins og önnur mannanna verk er alltaf eitthvað sem við þurfum að skoða betur. En stjórnin ákvað að fara þessa leið og nú höfum við fengið útskýringar á því hvernig tölurnar eru fundnar út. Við þurfum svo að fylgjast með því í framhaldinu hvernig brugðist verður við þeim athugasemdum sem nú hafa litið dagsins ljós varðandi niðurstöður af þeirri könnun. En það er alveg ljóst að lána á til framfærslu, raunframfærslu.


Efnisorð er vísa í ræðuna