145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[14:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú hækkun til heilbrigðismála sem við ræðum hér er fyrir utan allar launahækkanir eins og ég rakti. Í því sambandi er rétt að geta þess að stærstur hluti til heilbrigðisútgjaldanna felst í launakostnaði. Meðal þeirra verkefna sem eru hluti af áætluninni eru tækjakaupaáætlun Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri, tímabundin framlög, bygging sjúkrahótelsins, hönnun meðferðarkjarnans, útboð á byggingarframkvæmdum vegna sjúkrahússins, átak til að stytta biðlista, bygging og rekstur þriggja nýrra hjúkrunarheimila, styrking á daggjaldagrunni öldrunarstofnana, stóraukin framlög til S-merktra lyfja, átaksverkefni vegna lifrarbólgu C, verulega aukið óskipt útgjaldasvigrúm til málefnasviða sem falla undir heilbrigðismál á tímabilinu sem síðan á enn eftir að útfæra með hvaða hætti dreifist niður á einstaka málaflokka, stofnanir og verkefni.

Ég held að það verði aldrei horft fram hjá því að bein fjárfesting í stofnkostnaði er eitt mikilvægasta framlagið sem við getum beitt okkur fyrir á næstu árum á heilbrigðissviðinu. Það er nú eiginlega alfa og omega allra umræðna um heilbrigðismál eftir að við fengum ró um málefni starfsfólksins, sem var jú í verkfalli fyrir rétt rúmu ári síðan og náðum þar langtímasamningum um kaup og kjör í stéttinni. Næst er að bæta aðstöðuna fyrir aukið öryggi og sjúklingana. Að þessu leytinu til er langstærsta einstaka framkvæmdin sjúkrahúsið.

Varðandi greiðsluþátttökukerfin er ekki gert ráð fyrir sérstökum framlögum til viðbótar í greiðsluþátttökukerfin á áætlunartímabilinu, sem væru þá hugsuð til að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga. Það liggur hins vegar fyrir að það er stefna stjórnvalda (Forseti hringir.) í framhaldi af því að kerfin hafi verið einfölduð að taka til frekari skoðunar hvar við þyrftum að lækka enn frekar greiðsluþátttöku sjúklinga.