145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[14:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við áætlum að um það bil 60 milljarðar fari í heilbrigðismálin á áætlunartímabilinu þegar launaliðurinn og verðlagsuppfærslur eru tekin með. Það eru um 30 milljarðar sérstaklega vegna rekstrar- og stofnkostnaðar. Stór hluti af því mun fara í að fullhanna og hefja framkvæmdir við spítalann.

Varðandi barnabæturnar sérstaklega eru uppi ólík sjónarmið í þinginu um það hversu langt eigi að ganga með barnabótakerfin. Ég hef viljað skoða barnabótakerfin í samhengi við skattkerfið og önnur bótakerfi á sama tíma, svo sem vaxtabætur, svo sem húsnæðisbætur, sem nú liggja fyrir þinginu þar sem meðal annars er ætlunin að taka tillit til fjölskyldustærðar, og velta því upp, eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerði í tiltölulega nýlegri skýrslu sem afhent var íslenskum stjórnvöldum, hvort aðrar leiðir séu færar til að ná til þeirra sem mesta þörf hafa fyrir aðstoð. En í gegnum tíðina hefur minna verið horft til tekna og(Forseti hringir.) eigna varðandi barnabætur en í ýmsum öðrum bótakerfum. Það á sérstaklega við á Norðurlöndunum þar sem menn hafa mjög lítið verið að velta því fyrir sér hvort þörf sé fyrir opinberar millifærslur og stuðning.