145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[14:56]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fjármálaráðherra fyrir ræðuna og tek undir að það er ágætt að þetta mál er komið fram í fyrsta sinn í þeirri framsetningu sem hér er.

Mig langar að spyrja um fjármálaráð. Hér átti að vera búið að skipa fjármálaráð og frá og með deginum í dag eru fjórar vikur þangað til það á að gefa þinginu umsögn um þessa miklu stefnu og áætlun. Mér finnst því mjög sérstakt að ekki sé búið að gera það nú þegar og ég taldi að það hefði átt að vera búið að eiga einhverja aðild að þessu. Því spyr ég: Er búið að stofna það eða manna? Ef svo er ekki, hvenær gerir ráðherrann ráð fyrir að það verði gert?

Hæstv. ráðherra talaði um breiðu línurnar, að við þyrftum að nálgast þær sameiginlega, en það er nú svo að við höfum mjög ólíka m.a. skattapólitík og í áætlunum ráðherrans er t.d. samneyslan í sögulegu lágmarki á næsta ári. Það er eitthvað sem við vinstri græn höfum talað gegn, að hafa hana eins lága og hér kemur fram.

Það sem ég hef áhyggjur af eru undirliggjandi tekjustofnar ríkisins. Hér hefur margt verið hagfellt, olíuverðið, ferðaþjónustan, bankaskatturinn og stöðugleikaframlögin, en á meðan hafa tekjustofnar ríkisins markvisst verið veiktir og ráðherrann hyggst reka þetta áfram á einkaneyslunni.

Ég vil minna á að fyrir hrun voru skattar líka í lágmarki, m.a. fjármagnstekjuskattar, en það varð þó ekki til þess endilega að menn greiddu skattinn af arði sínum heldur var farið með hann úr landi í skattaskjól, eins og við höfum heyrt af undanfarið.

En ég spyr fyrst og fremst um fjármálaráð.