145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[15:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að koma inn á hlutverk skatta í þessu samhengi og yfir hagsveifluna. Ég minnist þess að fyrir ekki mörgum árum þegar ég talaði fyrir því að við mundum lækka skatta og létta undir með heimilunum í landinu sögðu menn það ekki tímabært. Þeir sögðu að það væri ekki tímabært vegna þess að ríkissjóður væri of skuldsettur og vegna þess að við þyrftum fyrst að jafna okkur eftir þessi miklu áföll. Menn gengu svo langt að segja þann sem hér stendur gríðarlega óábyrgan í sinni pólitík fyrir síðustu kosningar, að tala fyrir því að lækka skatta við þessar aðstæður. Það var ekki vegna þess að það væri svo mikil þensla í hagkerfinu. Nei, það var vegna þess að við vorum ekki enn búin að ná okkur, við værum enn í sárum.

Við hlustuðum ekki á þetta heldur lækkuðum skattana. Við lækkuðum gjöld, lækkuðum tolla, lækkuðum tekjuskatt og létum renna sitt skeið ýmsa tímabundna tekjustofna sem komið hafði verið á. Síðan er liðinn tiltölulega stuttur tími. Fyrir nokkru síðan fór ég að heyra að ástæðan fyrir því að ekki mætti lækka skattana væri sú að hér væri komin svo mikil spenna í hagkerfið. Þetta er enn eitt dæmi þess sem við höfum svo oft áður heyrt að það er eins og aldrei sé rétti tíminn til að létta undir með fólki, eins og það sé sérstakt markmið að halda sköttunum tiltölulega háum. Það er alltaf hægt að finna eitthvert tilefni að nýta skatttekjurnar í.

Þessu vildi ég koma að. Ég vildi líka koma því að að auðlegðarskatturinn átti að vera tímabundinn. Ég man ekki betur en að hv. þingmaður hafi beinlínis tekið það fram fyrir síðustu kosningar að hann mundi renna sitt skeið. Nú er sagt að það hafi verið mistök að láta hann renna sitt skeið. Sú tekjuskattslækkun sem við höfum beitt okkur fyrir hefur einkum farið til millitekjufólks. Það er rangt sem hér er haldið fram, að þetta hafi helst farið til þeirra sem mest hafa milli (Forseti hringir.) handanna. Og við höfum meira að segja lækkað neðsta þrepið.