145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[16:35]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu og ætla að leggja út frá því sem hv. þingmaður ræddi í lokin. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að fara í nokkra uppstokkun þegar kemur að lánasjóðnum og taka á ýmsum hvötum þar. Ég hef svo sem alltaf verið þeirrar skoðunar, og við höfum oft náð árangri með það, að ekki eigi að letja fólk til að vinna. Ég held að það sé örugglega gengið of langt núna, eins og hv. þingmaður ræddi. En hv. þingmaður ræddi líka annað stórmál sem eru húsnæðismálin. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér hugmyndir sem framkvæmdastjóri stúdentaráðs, Kristófer Már Maronsson, hefur skrifað á netsíðuna romur.is, sem er útfærsla á því að nýta séreignarfyrirkomulagið sem við settum af stað, þ.e. að nýta viðbótarlífeyrissparnaðinn sem útborgun og til að lækka þar af leiðandi greiðslubyrðina við húsnæðiskaup.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að þetta sé leiðin sem við eigum að fara. Við getum haft ýmsar útfærslur á því. Svipaðar hugmyndir hafa komið fram frá Hallgrími Óskarssyni sem bera yfirskriftina Strax í skjól. En ég held að eina leiðin fyrir okkur til að gera það að raunhæfum valkosti fyrir ungt fólk að kaupa sér húsnæði sé að nýta þetta góða fyrirkomulag sem er til staðar núna á þann hátt sem við gerðum, með því að opna á það að fólk geti greitt niður húsnæðislánin sín í gegnum viðbótarlífeyrissparnað. En við eigum að leggja meiri áherslu á það núna að hjálpa fólki og nýta þetta fyrirkomulag svo að fólk geti keypt sér íbúð. Þetta er náttúrlega óheyrilega hentugt fyrirkomulag, sérstaklega þegar við veitum skattafsláttinn þegar það er nýtt í húsnæðiskaupin. En í ofanálag eru þarna atvinnurekendur sem hjálpa í þessu (Forseti hringir.) tilfelli ungu fólki að kaupa sér íbúð. Allir útreikningar sýna að þetta er góð leið.