145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[16:42]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er náttúrlega mjög áhugaverð umræða sem vert er að taka. Ég tel að einmitt núna sé tíminn til að taka þessa umræðu, þegar við erum að ræða fjármálaáætlun fyrir framtíðina. Það er þannig að atvinnuþátttaka ungmenna, sérstaklega eftir hrun, minnkaði einfaldlega af því að það var ekki til peningur til að borga þeim fyrir vinnu. Að sama skapi virðist háskólanám ekki endilega skila sér í hærri tekjum fyrir útskrifaða námsmenn sem er líka vandamál, sem gerir það að verkum að stúdentar sem eru nýútskrifaðir úr framhaldsnámi annaðhvort fá ekki vinnu við hæfi eða fá ekki laun sem samsvara vinnunni, eins og í samanburðarlöndum okkar í Evrópu.

Það kom fram í skýrslu Arion banka, minnir mig, að kaupmáttur ungs fólks hefði staðið í stað á meðan kaupmáttur þeirrar kynslóðar sem á eftir kemur, 30 ára og eldri, hefði aukist undanfarin fimm ár. Við þurfum að gera eitthvað þarna og ég held og trúi því statt og stöðugt að flestir geti tekið skynsamlegar peningaákvarðanir. Ég held að bara það að auka frítekjumarkið fyrir stúdenta mundi strax skila sér í því að auðveldara væri fyrir þá að safna sér peningum til þess að byrja lífið. Eins og staðan er núna er mjög erfitt fyrir ungt fólk að safna sér fyrir sinni fyrstu íbúð. Þá spilar ekki síst inn í hátt leiguverð á höfuðborgarsvæðinu sem fer síhækkandi, sér í lagi þar sem mikið af þessu íbúðarhúsnæði er í Airbnb, en það er auðvitað allt önnur umræða.