145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[17:00]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ríkisfjármálastefna og ríkisfjármálaáætlun til 2021 eru skjölin sem slá tóninn fyrir fjármál ríkisins og hagstjórnina á næstu fimm árum. Þetta eru auðvitað grundvallarplögg sem sýna okkur á vissan hátt inn í hugskot stjórnvalda því að um leið og dregnar eru upp helstu forsendur hagstjórnarinnar og rekstrarumhverfis ríkisins þá sjáum við líka hvernig stjórnvöld hyggjast nýta sér skilyrðin til þess að ráðstafa fjármunum ríkisins og hlúa að helstu rekstrareiningum þess. Ég segi hlúa að því að það er það sem maður skyldi ætla að væri markmiðið. Því miður fæ ég því ekki séð nægilegan stað í þessari ríkisfjármálaáætlun, eins og ég mun rökstyðja betur.

Þessi stefna sem hér er kynnt byggir á grunngildum um sjálfbærni opinberra skuldbindinga og tilgangurinn er að stuðla að efnahagslegu jafnvægi og treysta þannig skilyrði fyrir hagkvæmri nýtingu mannafla, fjármagns og auðlinda eins og það er orðað. Um þau markmið skulum við ekki deila svo langt sem þau ná.

Ég sakna þess þó að sjá ekki í fjármálastefnunni önnur og fleiri markmið því að þó svo að skjalið heiti fjármálastefna ætti það að sýna einhvers konar samfélagsleg markmið á borð við velferðarmarkmið byggð á tilteknum lífskjaraviðmiðum og markmið um menntunarstig og þess háttar. Sú hugsun hefur því miður ekki skilað sér inn í áætlanagerðir hins opinbera enn sem komið er.

Það eru leiðirnar að markmiðum fjármálastefnunnar sem ég vil staldra við, en fyrst vil ég þó hafa nokkur orð um forsendurnar. Það vekur strax athygli að gert er ráð fyrir óbreyttu gengi næstu fimm árin. Sú forsenda hringir strax viðvörunarbjöllum varðandi það hversu raunhæfar þær áætlanir geti verið sem byggi á óbreyttu gengi næstu fimm árin. Á sama tíma er verið að hrinda af stað losun gjaldeyrishafta, sem eins og allir vita felur í sér hættu á ókyrrð í hagkerfinu. Ofan á þá hættu eru uppi viðvaranir um þensluhættu í hagkerfinu. Þess vegna skýtur skökku við að ríkisstjórnin skuli nú boða frekari skattalækkanir til viðbótar við fækkun skattþrepa og afnám auðlegðarskatts. Skattalækkanir eru þensluhvetjandi aðgerð, auk þess sem þær leiða af sér ójöfnuð og misskiptingu.

En ríkisstjórnin skeytir ekki um það heldur ætlar hún að mæta þensluhættunni með því að draga úr framkvæmdum og fjárfestingum hins opinbera. Hún ætlar líka að sitja sem fastast við niðurskurðarkeip sinn sem hér er kallaður aðhald á útgjaldahliðinni. Í sömu setningu er þó gengist við því sem allir sjá, að fjárfestingarþörfin er orðin afar brýn eftir efnahagshrunið 2008.

Nú skal ekki um það deilt að sem stendur er tiltekin þensluhætta til staðar í hagkerfinu. En ég tel að stjórnvöld geti engu að síður gert hvort tveggja, að fullnægja fjárfestingar- og framkvæmdaþörfinni en halda jafnframt innra jafnvægi í hagkerfinu með því að nýta betur þá tekjustofna sem nú liggja ónýttir hjá garði. Þá er ég ekki síst að vísa til auðlindagjaldsins eða veiðileyfagjaldsins sem ríkisstjórnin lækkaði á fyrstu dögum þessa kjörtímabils og afþakkaði þar með milljarða sem hefðu getað nýst til þess að lækka skuldir ríkisins eða til bráðnauðsynlegra framkvæmda í samgöngukerfinu sem ríkisstjórnin hefur, eins og við vitum, vanrækt.

Þetta gera menn sér ljóst eins og sjá má á greinargerðinni með ríkisfjármálaáætluninni þar sem segir að mikil þörf hafi myndast fyrir nauðsynlega uppbyggingu í innviðum samfélagsins, einkum á sviði orku- og samgönguinnviða. Þar er líka réttilega bent á að lágt viðhalds- og fjárfestingarstig undanfarin ár ásamt gríðarlegum vexti í ferðaþjónustu hafi kallað á aukna uppbyggingu í flugumferðarmannvirkjum samhliða fjárfestingu í orkuframleiðslu og raforkudreifingu. Á sama tíma er raunveruleg hætta á því að til dæmis ferðaþjónustan gangi of nærri náttúruperlum landsins og jafnvel eigin orðspori og markaðsmöguleikum vegna þess að hún er farin að ganga á sjálfa sig og gæði þess sem hún er að selja.

Þannig að fjárfestingar- og framkvæmdaþörfin er orðin brýn en henni er ekki svarað með aðgerðum í þessu plaggi. Samt fullyrðir fjármálaráðherra í ræðu sinni áðan að ríkissjóður hafi yfrið næga fjármuni, 400 milljarða kr. í afgang, svo mikla peninga að engin þörf er á meira tekjustreymi. Þau skilaboð fá þó annarlegan hljóm í ljósi þess mikla aðhalds sem er boðað í þessari áætlun, því illt er að hafa fullar hendur fjár en finna þeim ekki þarfleg verkefni. Til hvers stóðum við þá hér í síðustu fjárlagaumræðu í baráttu fyrir aukin framlög til aldraðra og öryrkja, í baráttu fyrir kjörum bótaþega og barnafólks, ef peningarnir hafa aldrei verið vandamálið? Hvers vegna er þá ekki hægt að bæta stöðu Ríkisútvarpsins sem um munar eða snara upp tíu hjúkrunarheimilum um landið allt í staðinn fyrir þau þrjú sem ríkisstjórnin ætlar að láta nægja á næstu fimm árum, öll á höfuðborgarsvæðinu? Væri ekki líka nær að efla menntakerfið og veita viðtöku fullorðnu fólki í framhaldsskólana? Hvaða þörf er á þá á því að gera þær breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna sem verið er að gera til mikils óhagræðis fyrir lífsafkomu nemenda og þá sérstaklega þeirra sem sækja nám sitt erlendis?

Nei, virðulegi forseti. Vera kann að milljarðarnir fljóti yfir barma ríkissjóðs og víst hefur efnahagur landsins batnað en ég gef lítið fyrir þau rök að þess vegna megi ekki taka eðlilegar arðgreiðslur af auðugum atvinnugreinum á borð við útgerð og ferðaþjónustu. Því ef ekki er hægt að fullnýta tekjulindir í góðæri hvenær þá? Sjávarútvegur og ferðaþjónusta mala gull og hafa aldrei staðið betur, en það mætti ætla að ráðamenn hefðu aldrei heyrt talað um það að safna til mögru áranna, fylla hlöðurnar og eiga í þeim. Það er annarlegt að hlífa auðugum atvinnugreinum á sama tíma og verið er að herða sultarólina í ríkisrekstrinum með þeim afleiðingum sem við sjáum nú þegar í velferðarkerfinu þar sem heilbrigðisstofnanir eru fjársveltar til skaða. Nú er gert ráð fyrir auknum fjármunum þar inn á næstu fimm árum en því miður þá er aðeins stofnkostnaðurinn þar inni, þannig að það bætist sáralítið við til aukinnar þjónustu.

Framhaldsskólarnir á landsbyggðinni sjá ekki fram á bjartari tíma. Sumir hverjir fá ekki einu sinni áætlað fyrir raunverulegum nemendafjölda. Óhögguð er sú ákvörðun að beita fjárlagavaldi til að meina fullorðnum nemendum aðgengi að framhaldsskólunum. Háskólastigið býr við stefnuleysi. Ríkisútvarpið sér enn fram á mikinn niðurskurð til viðbótar við allt sem á undan er gengið og eins og ég sagði áðan eru fyrirhugaðar breytingar á lánasjóðnum. Þá er órætt um stöðu bótaþega á Íslandi, stöðu sjúklinga sem sitja uppi með þungar greiðslubyrðar sem sumar hverjar munu þyngjast enn.

Okkur er þrátt fyrir þetta sagt núna að ekki vanti peninga í ríkissjóð. Það er athyglisvert. En að skoða þá fullyrðingu og bera hana saman við þá ríkisfjármálaáætlun sem hér er lögð fram sannar og sýnir að hér er ríkisstjórnin að ráðstafa fjármunum hinna mörgu og smáu í þágu hinna ríku og fáu.