145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[17:30]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum í dag tvær mjög ánægjulegar þingsályktunartillögur sem eru lagðar fram í fyrsta skipti eftir samþykkt laga í desember um opinber fjármál, þ.e. tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 og stefnumörkun í því. Það sem er óeðlilegt er að það er árið 2016 sem við förum inn í þennan fasa, inn í svona vinnubrögð, skipulögð vinnubrögð sem eru til að setja þetta niður til fimm ára, marka stefnuna, sem er mjög gott. Ég hef stundum sagt að á Alþingi voru settar þær kröfur á sveitarfélögin að búa til þriggja ára áætlun og uppfæra hana á hverju ári en ríkið gerði ekki þær kröfur til sjálfs sín. Það er mjög ánægjulegt þegar við tölum um opinber fjármál að sveitarfélögin skuli vera komin þar inn í líka, vegna þess að auðvitað verður þetta að vinna saman, það dugar ekki að ríkissjóður greiði niður skuldir og reki sig í plús ef sveitarfélögin eru í bullandi mínus og safna skuldum, eða öfugt. Við verðum að horfa á þetta heildstætt. Að því leytinu til er mjög ánægjulegt að ræða þetta núna þó að við séum hér í fyrsta skipti, séum að fóta okkur, og margt mjög nýtt í framsetningu sem gerir manni erfiðara fyrir að fara í gegnum alla þættina.

Útgjaldaramminn í 34 liðum er skemmtilega settur upp, það hvernig maður getur farið í gegnum útgjöld lið fyrir lið eftir málefnasviðum og farið þar í gegnum áherslur og aðgerðir o.s.frv. En ég spái því að það sé svolítill barnabragur á uppsetningunni núna og hún eigi eftir að taka töluverðum breytingum, bæði til þess að gera efnið aðgengilegra og auðveldara að fletta upp í því og fylgjast með.

Það er stutt síðan við samþykktum lögin og kerfið hefur haft tiltölulega stuttan tíma til að setja þetta upp, samanber að þetta kemur mánuði of seint, allt í lagi með það, það verður að virða að það tekur tíma að gera svona breytingar.

Það er ánægjulegt að í þessu eru niðurstöðutölur sem við getum verið ánægð með, mjög jákvæðar tölur um margt þótt auðvitað megi alltaf gagnrýna eitthvað af því og hafa öðruvísi skoðanir en hér eru settar fram af núverandi ríkisstjórn. Ég mundi vilja sem jafnaðarmaður sjá þetta í meiri átt til jöfnuðar. Ég ætla ekki að fara út í það núna, það verður verkefni fjárlaganefndar að fara í gegnum og okkar að ræða við síðari umr. þegar fjárlaganefnd hefur prjónað sig í gegnum það.

Grundvallaratriðið er að við erum að gera þetta á tíma þar sem eru mjög hagfelld skilyrði í landinu fyrir því sem er verið að setja fram, ytri skilyrði eins og t.d. að það varð 75% lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu. Hjá eins mikilli olíuinnflutningsþjóð og okkur tekur það fljótt í og lagfærir hlutina, þó að verðið hafi breyst dálítið síðustu missiri og farið að hækka. Ég segi fyrir mitt leyti að vonandi verður hækkunin ekki meiri, vonandi ná olíuríkin ekki samkomulagi um fákeppni eða hafa samráð um verðlagningu í heiminum. Ég held að þetta sé allt í lagi eins og það er í dag.

Frá olíunni yfir í næsta búhnykk, getum við sagt, sem er komur erlendra ferðamanna. Það er talið að þeir verði 1,4 milljónir á þessu ári ef taldir eru með þeir sem koma með skemmtiferðaskipum. Það er ánægjuleg þróun sem skilar miklu inn í landið. Við getum lesið um það í kaflanum um ferðamál að starfsemi ferðaþjónustufyrirtækja hefur stóraukist. Ferðaþjónustan er orðin mest skapandi iðngreinin í landinu hvað varðar gjaldeyri. Því er spáð áfram og vonandi tekst okkur að halda áfram að lengja ferðamannatímabilið í báðar áttir svo að allt árið verði undir og að ferðamenn sæki ekki einungis á höfuðborgarsvæðið heldur líka á landsbyggðina, þannig að ferðamenn dreifist meira um landið og á alla mánuði ársins og haldi áfram að skapa miklar tekjur. Það má benda á í leiðinni að í gær, held ég, var sú sögulega stund að evran fór niður fyrir 140 kr. Ef ég man rétt er það í fyrsta skipti frá árinu 2007. Menn geta svo sem talað um hvort það eru jákvæð skilyrði eða neikvæð, það fer eftir því hvernig á það er litið. Ég bendi á þetta vegna þess að það getur ýmislegt gerst í hagkerfi okkar sem hefur þau áhrif að ferðamönnum fækkar. Ég held að það hafi verið hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem hér gengur í salinn, sem nefndi einu sinni að ferðamenn gætu horfið á svipstundu, rétt eins og síldin í heimabæ mínum í gamla daga, sem hafði mikla efnahagsörðugleika í för með sér árin 1967–1968. Vonandi verður það ekki.

Þriðji þátturinn sem er mjög hagfelldur hjá okkur er sjávarútvegurinn. Það er mikil veiði og hátt verð, m.a. út af gengi krónunnar en líka vegna tilkomu nýrra fiskstofna í landhelgi landsins, eins og makrílsins. Síðan má tala um hugverkasölu og hugverkaiðnaðinn o.s.frv.

Hæstv. forsætisráðherra sagði rétt áðan, og það kemur fram í þessum gögnum, að afgangur á fjárlögum þessa árs yrði um 400 milljarðar kr. Það er einsdæmi en er að stærstum hluta út af stöðugleikaframlagi slitabúanna, sem er 384 milljarðar kr. sem verða tekjufærðir á þessu ári. Ég vil minna á þegar menn tala um þá gleði að það verði 400 milljarðar í afgang á þessu ári að við áttum ár þar sem þessir stjórnarflokkar voru ekki við völd, þeim var komið frá, þeir kveiktu bálið, í störfum þeirra gerðist ýmislegt 2008 þó að það hafi að mestu verið fall fjármálakerfisins um víðan völl sem olli því hér líka. Ég minni á þegar menn fagna 400 milljarða afgangi núna að þeir geta farið aftur til ársins 2009 þar sem voru 220 milljarðar í mínus út af öllu því sem hafði gerst og út af þeim áföllum sem við urðum fyrir í þessu landi. (Gripið fram í.) Við tókum við, hv. 1. þm. Norðaust., þrotabúi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eftir að sú ríkisstjórn lifði nokkur ár á því að flytja inn erlendan gjaldeyri sem heitir aflandskrónur, jöklabréf o.fl., sem er verið að reyna að koma út úr landinu núna með þeim aðferðum sem við höfum stundum rætt.

Eins og ég segi er margt í þessu sem sýnir þau hagfelldu ytri skilyrði sem eru í þjóðfélaginu plús að hér er stöðugleikaframlaginu loksins að ljúka og það að koma inn í formi eigna sem eru að mestu til komnar vegna lauss fjár og framseljanlegra eigna frá viðskiptabönkum o.fl. Þarna er talað um að þær verði seldar eftir ákveðnu kerfi og ég vona að í því kerfi verði við söluna lögð áhersla á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Mér verður hugsað til þess sem ég ræddi í gær um sölu á eignarhlut Landsbankans í Borgun, að það hefði verið betra að þessi fjögur hugtök hefðu verið komin inn þá.

Virðulegi forseti. Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hafa farið hamförum við að tala um fjármál Reykjavíkurborgar, sem ég er ekkert sérstaklega vel að mér um en veit þó að þar kemur gjaldfærsla á síðasta ári, miklar lífeyrisskuldbindingar. Í þessum gögnum er talað um 435 milljarða kr. sem eru teknir út fyrir sviga, eru uppfærslur á lífeyrisskuldum vegna aukinna lífslíkna og stærðfræðiútreikninga. Það var líka nefnt í fjárlagafrumvarpi þessa árs en var ekki sett inn og ég segi fyrir mitt leyti: Ég bíð spenntur eftir að heyra þær tölur, alveg eins og mér fannst alveg sérstaklega skemmtilegt að heyra hæstv. forsætisráðherra tala um fréttatilkynninguna sem kom frá ríkisstjórninni í morgun þar sem hún gumaði sig af því, og nokkrir stjórnarsinnar, að mestur jöfnuður (Forseti hringir.) væri á Íslandi árið 2014, fyrsta heila ár núverandi ríkisstjórnar, en í ljós kom að það var svolítið misskilið, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) því að þetta var fyrir árið 2013. Þetta var sú stefnumörkun (Forseti hringir.) sem síðasta ríkisstjórn lagði fram með fjárlögum sínum og stefnu fyrir árið 2013.