145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[17:54]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við getum ekki búið við þessa samgönguáætlun og þær forsendur sem hér eru í ríkisfjármálaáætlun til fimm ára lagðar upp. Það er stórslys í vændum, neyðarástand í vændum og það er þegar orðið það í raun og veru. Síðast í dag eru á vefnum fréttir þar sem haft er eftir vegamálastjóra hvernig vegirnir eru að hrynja, burðarþolið að hverfa úr þeim og þeir að stórskemmast, sem þýðir aftur að það verður enn þá dýrara að endurreisa þá.

Í samgönguáætlun, án þess að við höfum tíma til að fara langt út í hana, er líka útkoma ákveðinna svæða í henni með þeim endemum að ég hef aldrei séð annað eins á 33 ára sögu minni hér. Ég hef aldrei séð heilt landsvæði, heilan landshluta tóman með engar framkvæmdir, eins og norðursvæði Vegagerðarinnar á að vera samkvæmt samgönguáætlun á árunum 2017–2018.

Ég tel að stór mistök hafi verið að láta ekki markaða tekjustofna Vegagerðarinnar, meðan þeir eru þó enn markaðir, fylgja verðlagi. Ég skil ekki af hverju ríkisstjórnin hefur ekki notað tækifærið þegar olíuverð hefur hríðlækkað og bensínlítrinn lækkað um hátt í 100 kr. til að færa hinar mörkuðu tekjur upp í topp. Það hefði enginn tekið eftir því. Þá hefðum við 7 milljörðum meira úr að spila. Það væri veruleg bót.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir að það voru miklar framkvæmdir og blessunarlega margt í gangi og mikið í pípunum við hrun og það hélst mjög hátt framkvæmdarstig og við létum það ganga í gegn og færðum yfir ónýttar heimildir Vegagerðarinnar, eins og hv. þingmaður og þáverandi ráðherra man. En við verðum líka að horfast í augu við að við drógum verulega saman t.d. í viðhaldi og það var lítið annað að gera en að spara það sem hægt var að spara. Það var aldrei hugsað nema sem tímabundin ráðstöfun.

Hverjum datt í hug að á sjötta ári hagvaxtar og þegar ríkissjóður er kominn í bullandi plús værum við enn að kvelja þennan málaflokk og hann væri verr leikinn en hann var á botni kreppunnar? Það hvarflaði aldrei að mér, enda voru í raun og veru áherslur okkar þær að við gáfum í strax 2013, (Forseti hringir.) eins og hv. þingmaður veit, með fjárfestingaráætluninni.