145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[17:56]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ánægjuleg upprifjun þegar þáverandi samgönguráðherra og þáverandi fjármálaráðherra settust niður til að ná samkomulagi um fjárveitingar til samgöngumála á erfiðleikaárum okkar og rétt sem hv. þingmaður og fyrrverandi fjármálaráðherra segir að þar var heldur betur gefið í og Íslandsmet slegið. Það er líka rétt að skorið var niður til viðhalds, en það má segja að þarna hafi viðhald verið fólgið í því að menn byggðu upp nýja vegi. Ef ég tek dæmi úr mínu kjördæmi þá þarf ekki mikla fjármuni til viðhalds á leiðinni til Vopnafjarðar í dag, sem var oft á tíðum ófær vegna þess að vegirnir voru eins og þeir voru annars staðar árið 1950, og má taka ýmis fleiri svæði sem dæmi í þeim efnum. Þetta var í raun og veru fyrirbyggjandi hvað það varðar og minna viðhald þegar búið var að byggja upp vegi. Viðhald getur nefnilega falist í því að byggja upp vegi til nútímans. En það er rétt að fjárskortur kemur niður á vegakerfinu í dag, við skulum einskorða okkur við vegakerfið í þessu stutta andsvari.

Það má auðvitað bæta við í samgönguáætlun hvað varðar flugmál og hafnamál. Þar er nánast ekki neitt. En sem dæmi, af því að við erum að taka dæmi úr kjördæmi okkar, norðursvæðinu, sem tilheyrir líka hv. 1. þm. Norðaust., Hjálmari Boga Hafliðasyni, má nefna að þær 150 milljónir sem okkur eru áætlaðar á öllu svæðinu á næsta ári, mér reiknast til að þær dugi fyrir tæpum 2 km af nýlögðum vegi, kannski ekki nema 1,9 ef tilboðin verða eitthvað upp fyrir. Ég held að við náum ekki 2 km markmiðinu. Það var þannig, virðulegi forseti, að þegar sveitarstjórnarmenn fóru að skrifa okkur þingmönnum Norðausturkjördæmis bað ég þá að bíða rólega vegna þess að það hlytu að hafa orðið mistök við prentun á samgönguáætluninni. (Forseti hringir.) Ég hélt að það vantaði einhverjar blaðsíður inn í, en það var því miður ekki raunin (Forseti hringir.) heldur var þetta talan. Ég spyr hv. þingmann: (Forseti hringir.) Er hann sammála mér um að við getum kannski komist í (Forseti hringir.) 2 km á norðursvæðinu á næsta ári?