145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[17:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það gæti farið svo að það yrði ekki miklu meira en það, kannski einungis 1,9 km eins og hv. þingmaður segir. Eigum við ekki bara að kenna þann spotta við hv. þm. Hjálmar Boga Hafliðason, sá kílómetraspotti verði merktur honum? En svo því sé til haga haldið las ég mér til ánægju að hv. þm. Hjálmar Bogi Hafliðason, 1. þm. Norðaust., var gagnrýninn á samgönguáætlun í viðtali við mjög góðan svæðismiðil. Kannski var það aðallega til heimabrúks en engu að síður taldi hv. þingmaður samgönguáætlunina ekki góða.

Við getum velt því fyrir okkur hvar við værum stödd með þessar framkvæmdir hefðu ekki verið settar í gang þær framkvæmdir sem gert var með fjárfestingaráætluninni á árunum 2012/2013, eins og Norðfjarðargöng og fleiri slíkar stórar framkvæmdir. Nú eru þær að þorna upp. Staðan er þannig í Norðausturkjördæmi, svo maður taki það þótt mér leiðist alltaf sá samanburður, að þegar þeim framkvæmdum lýkur þá þorna framkvæmdir upp í kjördæminu, það verður ekki neitt í gangi. Það er ekki hægt. Það er ómögulegt. Ég held að mestu syndirnar séu, og þær elta okkur langt til baka og bera margir ábyrgð á því, að héraðs- og tengivegakerfi landsins hefur algerlega mætt afgangi í ein 20 ár. Það er skelfilegt ástand á því. Lengsta vegakerfi óburðugra malarvega sem til eru í landinu er um norðaustanvert landið. Það er yfir 2 þús. km á sumum svæðum Vegagerðarinnar á slíkum vegum á Norðurlandi og austanverðu landinu. Það gera hinir löngu dalir og víðáttumiklu héruð eins og Héraðið og dalir Suður-Þingeyjarsýslu o.s.frv. Þarna er gríðarlega langt algerlega óviðunandi vegakerfi og við komumst ekkert áfram með að laga það.

Svo tek ég undir að staða innanlandsflugkerfisins er algerlega óásættanleg. Það er bæði búið að kvelja það hvað varðar nýfjárfestingar, viðhald og svo er þjónustusamningurinn við Isavia svo magur að það gerist ekki neitt á sama tíma og við sjáum tugi milljarða setta í uppbyggingu í Keflavík. Þetta gengur ekki svona. (Forseti hringir.) Við verðum að breyta (Forseti hringir.) um áherslur og setja meiri fjármuni í þessa fjárfestingu, því að það er ekki eins og eigi að fara að kasta peningum út um gluggann, frú forseti, (Forseti hringir.) þótt lagt sé í arðbærar (Forseti hringir.) samgönguframkvæmdir. (Forseti hringir.) Það er einhver besta framtíðarfjárfesting sem til er.