145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[18:43]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun og fjármálastefnu samhliða og er það vel. Þetta er gert á grundvelli nýrra laga um opinber fjármál sem er afar mikilvægt að hafa í huga. Þessi áætlun og stefna gildir til næstu fimm ára, eða til 2021. Það hefur lengi verið unnið að því að treysta umgjörð ríkisfjármála og má segja að það skref að samþykkja lög um opinber fjármál sem tóku gildi í janúar síðastliðinn sé einhver mikilvægasti áfangi á þeirri vegferð, vegferð sem felst í að auka aga og gefa okkur verkfæri til að vinna að markmiðum um stöðugleika. Þess vegna er það afar mikilvægt í sjálfu sér að festa þessa framkvæmd í lög og til þess fallið að hægt sé að ná þeim markmiðum sem hér eru fram sett og ekki síður fyrirsjáanleika og að auka líkurnar á stöðugleika til lengri tíma.

Við erum reyndar, virðulegi forseti, að ræða fjármálastefnu og fjármálaáætlun við mjög merkilegar aðstæður. Þá er ég að tala um þær aðstæður sem eru að teiknast upp í íslensku efnahagslífi, ekki endilega í pólitíkinni. Það hafa átt sér stað gífurleg umskipti í íslensku hagkerfi og í raun hefur orðið ótrúlegur efnahagslegur viðsnúningur og endurreisn hvert sem litið er. Þegar ég tala um þennan viðsnúning þá á ég ekki við að hann hafi gerst á einum tímapunkti, heldur liggur mikil vinna að baki og við höfum gert nokkuð vel alveg frá hruni í því að vinna okkur til baka, það verður bara að segjast, og allir hagvísar sýna þess merki í dag, jákvæð merki. Efnahagsspár, sú uppfærða þjóðhagsspá Hagstofunnar sem ríkisfjármálaáætlun byggir á og aðrar spár sem hægt er að vísa til, við vísum hér til að mynda í hagspá Alþýðusambands Íslands, sýna hagvöxt í kortunum til næstu átta ára. Í slíkri stöðu eru vissulega mikil tækifæri. Í sögulegu tilliti er mikilvægt að við förum á sama tíma mjög vel með og varfærnislega, að við búum í haginn.

Þess vegna tel ég að við nýtum hér mjög mikilvægt verkfæri og það má líka marka af þeim umræðum sem hafa átt sér stað í dag um fjármálaáætlun og fjármálastefnu. Þetta er hefðbundin stefnumótun þar sem við sjáum stefnu til lengri tíma og markmið sem henni fylgja. Þetta er mjög ítarlegt plagg upp á rúmlega 200 blaðsíður og í fyrri umr. ræðum við einkum forsendur áætlunarinnar og stefnumótunar, en í síðari umr. á ég von á því að útgjaldaramminn sem hér fylgir verði betur ræddur og málefnasviðin öll.

Þetta verkfæri, grundvöllur laga um opinber fjármál, mun treysta alla vinnu og forsendur til að auka aga og til að ná þeim eftirsóknarverða stöðugleika sem okkur verður svo tíðrætt um og er nauðsynlegur hagkerfinu og þeim meginstoðum sem það byggja, atvinnulífinu og heimilunum.

Það segir sig auðvitað sjálft þegar við ræðum stefnu og áætlun að því fylgir að ræða markmiðin sem eru kjarninn í slíkri stefnumótun. Hér er að finna mjög ítarlega úttekt og samantekt á markmiðum allra meginmálefnasviða.

Lengi hefur verið kallað eftir því, virðulegi forseti, að hér sé samhæfð stjórn peningamála á Íslandi sem er á hendi Seðlabankans, ríkisfjármála og ekki bara ríkissjóðs heldur einnig sveitarfélaganna. Það eru ákveðin tímamót í þessari stefnu. Það er jafnframt mikilvægt þegar við erum að skoða þær efnahagslegu forsendur sem liggja að baki að áætlunin sé í einhverjum takti við þá hagsveiflu sem við sjáum fyrir og taki mið af henni og styðji við aðgerðir og ákvarðanir sem eru teknar, bæði á sviði sveitarstjórnarmála, ríkisfjármála og svo peningamála.

Nú erum við, eins og ég kom inn á áðan, í fyrsta skipti að fylgja lögum um opinber fjármál og 7. gr. þeirra laga markar með ákveðnum hætti stefnuna, en hún segir til um svokölluð fjármálaleg skilyrði. Þau eru að heildarjöfnuður yfir fimm ára tímabil skuli ávallt vera jákvæður og árlegur halli verði ávallt undir 2,5% af vergri landsframleiðslu. Í öðru lagi að heildarskuldir að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum og að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum séu lægri en nemur 30% af vergri landsframleiðslu. Þessu skuldahlutfalli, virðulegi forseti, verður náð þegar árið 2017. Það er afar mikilvægt vegna þess að ríkisstjórnin hefur stefnt að því að lækka skuldir ríkissjóðs og draga úr vaxtabyrði til að auka svigrúm til frekari uppbyggingar og útgjalda í velferðarmálum í grunnkerfum okkar eins og menntamálum, almennri velferð og ekki síst til heilbrigðiskerfisins. Það kemur mjög ljóslega fram í áætluninni að aukið er verulega til þessara málaflokka og sérstaklega til heilbrigðiskerfisins.

Við verðum auðvitað alltaf að vera raunsæ og treysta á kerfin og stefnuna. Veldur hver á heldur, og með þessari miklu kaupmáttaraukningu og batnandi atvinnustigi eru auðvitað blikkandi ljós um þenslu í kerfinu. Þess vegna má kannski segja að það sé brýn og mikilvæg tímasetning að hafa samþykkt að taka þetta verkfæri í gagnið sem fólgið er í lögum um opinber fjármál og ræða ríkisfjármálin til lengri tíma. Ég hef trú á því að það sé kannski ekki síður mikilvægt en það sem kemur fram í stefnunni sjálfri, þó að það skipti auðvitað alltaf miklu máli að stefna yfirvalda komi skýrt fram. En það er ekki síður mikilvægt að við höfum verkfærið til þess. Ég fagna því og vil nefna það sérstaklega, virðulegi forseti, vegna þess að unnið hefur verið að því lengi að koma ríkisfjármálum í þennan farveg.

Það eru, eins og ég kom inn á, bjartar horfur í íslensku efnahagslífi. Fjármálaáætlunin byggir á endurskoðaðri þjóðhagsspá og við verðum að taka mið af henni. Það er mjög mikilvægt á komandi missirum og árum að tryggja stöðugleika. Sagan kennir okkur að okkur hefur oft reynst erfitt við slíkar aðstæður að missa okkur ekki á útgjaldahliðinni. Ég held þess vegna að þær fjármálareglur sem koma fram í 7. gr. laga um opinber fjármál séu mjög mikilvægar reglur fyrir löggjafann og stjórnvöld að fylgja. Ég held að það geti í það minnsta verið þverpólitísk sátt um að vinna að því að halda sig við þær fjármálareglur.

Virðulegi forseti. Það er óðs manns æði að ræða ríkisfjármálaáætlun og ríkisfjármálastefnu á tíu mínútum, en (Forseti hringir.) það er klárt mál að í síðari umr. munum við ræða frekar útgjaldarammann og málefnasviðin.