145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[19:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma inn á nokkur þeirra atriða sem fram komu í síðustu ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hér undir lokin, en almennt vil ég segja að mér finnst hafa tekist ágætlega til í þessari fyrri umr. um fjármálastefnu og fjármálaáætlun til fimm ára. Það var við því að búast að rætt yrði um tekjulínuna og forsendur hennar og sömuleiðis að á gjaldahliðinni væri vakin athygli á einstaka málaflokkum sem menn teldu að þyrftu frekara fjármagn, eftir atvikum aðra forgangsröðun.

Ég ætla að segja það alveg hreint út aftur sem ég tók fram í fyrri ræðu minni í dag að eftir að hafa legið yfir þessu í þó nokkuð langan tíma og eftir að hafa kynnt þessa áætlun fyrir ráðherrum og starfað í ríkisstjórninni með hana fyrir framan okkur og staðið að kynningu á henni, þá hef ég mjög mikinn skilning á því að þingmenn almennt þurfi dálítinn tíma til þess að glöggva sig á þessari breyttu framsetningu. Það er GFS-staðallinn, það eru málefnasviðin og að ná utan um það hvað heyrir nákvæmlega undir hvert og eitt málefnasvið og hvað fellur undir laun og verðlagsliðinn, hvaða forsendur eru að baki — þetta er heilmikið að melta í einu.

Sömuleiðis vil ég halda því til haga að það er heilmikið álag á stjórnkerfið að taka saman áætlun til næstu fimm ára í einstökum málefnasviðum. Þar hafa öll ráðuneyti lagt af mörkum. Það er sjálfsagt að nota hér síðari ræðu til þess að þakka öllum þeim sem hafa komið að málinu. Aldrei hafa jafn margir í stjórnkerfinu hygg ég komið að skjali sem þessu, en að baki þessari vinnu liggur heilmikið þverfaglegt samstarf allra tengiliða í ráðuneytinu. Ég hafði aldrei væntingar um að þetta yrði fullskapað í fyrstu tilraun, en með því að við höfum lagt af stað í þessa vegferð þá erum við komin með grunn til að byggja á og í framtíðinni hef ég væntingar til þess að þetta skjal muni halda áfram að þroskast og þróast í átt til þess að verða mjög skýr framsetning á því hvers er að vænta í öllum þessum málefnasviðum á komandi árum. Það er síðan eitt sem við getum líka haldið áfram að velta fyrir okkur, það er hversu mikið við eigum að brjóta þetta upp í einstök málefnasvið.

Örstutt síðan um einstök atriði sem hér hafa verið nefnd í umræðunni í dag og verða eflaust skoðuð frekar í nefnd. Ég er ánægður að heyra samstöðuna um inngreiðslur í LSR. Það er sjálfsagt að halda því líka til haga í umræðunni að það leggst ekki á okkur í heildarafkomunni að sinna inngreiðslum í LSR. Þetta birtist bara í greiðslujöfnuðinum þannig að það að taka ákvörðun um 5 milljarða inngreiðslu í LSR birtist ekki sem lakari afkoma heldur þurfum við einfaldlega að hafa fjárstreymi til þess að standa undir þeim inngreiðslum, en þetta er algjörlega nauðsynleg ráðstöfun.

Frumgjöldin. Það er við því að búast að menn takist á um hvar við eigum að stilla þeim, en já, línan er örlítið flatari en við höfum haft hana í fyrri áætlunum, enda eru tekjustofnarnir aðeins sterkari og við höfum séð aðeins breyttar aðstæður, t.d. vegna stöðugleikaframlaganna sem nú eru komin í hús. Það er styrkleiki í því fyrir okkur til að geta ráðstafað þeim til að greiða upp skuldir og þar með skapað aðeins meira svigrúm á útgjaldahliðinni.

Varðandi veikleika áætlunarinnar, ef hægt er að tala um þá, tel ég að í fyrsta lagi höfum við í sjálfu sér ekkert annað að byggja á en hagspárnar. Það er ekki ábyrgt að nota sér neitt annað. Það eru svo sem fyrirvarar slegnir í áætluninni um ýmislegt sem gæti þróast á verri veg fyrir okkur, en ég mundi kannski vilja segja að þetta væru óvissuþættir inn í framtíðina, þeir eru allnokkrir. Það getur haft mjög mikil áhrif á þróun mála á Íslandi hvernig gengið þróast, hvað gerist við haftaafnámið, hvernig tekst til við næsta áfanga. Og síðan í framhaldinu hvernig horft verður til okkar eftir að næstu tveimur áföngum verður hrint í framkvæmd, þ.e. hvort fjárstreymi mun verða til landsins og hvernig okkur mun takast til við að sannfæra menn um að hér sé komið umhverfi stöðugleika. Sem sagt, ytri áhrifavaldar á gengisþróunina geta haft mjög mikil áhrif.

Í öðru lagi. Þróun olíuverðs getur haft mjög mikil áhrif á greinar eins og ferðaþjónustuna í báðar áttir. Við erum í dag með ytri aðstæður mjög hagstæðar okkur, það hefur hjálpað til við að halda aftur af verðbólgu og væntanlega að halda fargjöldum til landsins lágum. Ef þessir tveir þættir mundu í senn báðir þróast á verri veg, olía hækkað töluvert og gengið styrkjast, þá væri það eins og tvöfaldur löðrungur fyrir þessa grein sem er í mjög miklum vexti og alla þá sem eru núna að framkvæma mikið til þess að búa sig undir áframhaldandi vöxt. Það gæti komið afturkippur í hagspár við þetta.

Sama gildir um þróun í viðskiptalöndum okkar. Það er ekki alveg útséð um það hvenær fer að birta frekar til hjá evrulöndunum, hvers er að vænta á evrusvæðinu. Það hefur ekki gengið mjög vel að kynda þar undir viðvarandi vöxt. Vextir eru virkilega lágir á evrusvæðinu og reyndar víðar. Spurning er hvernig mun úr því spilast. Mun kaupmáttur í helstu viðskiptalöndum okkar haldast sterkur eða ekki? Þetta eru bara nokkrir óvissuþættir sem ég tel að blasi við okkur og geta haft áhrif á framvinduna. Þannig að það er alveg rétt í sjálfu sér sem sagt er að tekjulínan er að töluverðu leyti háð því að spár gangi eftir.

Varðandi afganginn hins vegar og spurninguna um það hvort hann sé nægjanlegur á spátímabilinu eða þessu áætlanatímabili þá verð ég að benda á að frumjöfnuðurinn er gríðarlega sterkur hjá Íslendingum í dag og hefur verið undanfarin ár, alveg feikilega sterkur. Hann er líklega einn sá mesti í gjörvallri Evrópu. Það sem kemur á móti þessum mjög svo sterka frumjöfnuði eru óvenjuhá vaxtagjöld fyrir lönd eins og okkar. Við njótum ekki enn sanngjarnra kjara, svo ég leyfi mér nú bara að segja það eins og ég upplifi það, miðað við efnahagsstöðuna almennt. Það leiðir til þess að við höfum ekki marga aðra kosti en að vinna niður skuldirnar og lækka þar með vaxtagjöldin, vegna þess að hugmyndin um að fá enn meiri frumjöfnuð, t.d. með því að sækja frekari tekjur o.s.frv., ég held að hún sé einfaldlega óraunhæf. Ég held að það sé óraunhæft að byggja á því í svona langtímaáætlun að hægt sé að hafa 10, 15, 20% meiri frumjöfnuð en við byggjum áætlunina á eins og hún liggur fyrir þinginu. Frumjöfnuðurinn er með því allra mesta sem þekkist.

Ég hef tekið fram í máli mínu í dag að opinbera fjárfestingin er lág. Við höfum skýrt það í þessari áætlun hvers vegna það er. Það er lítið svigrúm til að auka hana verulega núna. Hins vegar á þeim tímum sem hagvöxtur er jafn kraftmikill og raun ber vitni þá er nafnvirði fjárfestingarinnar að aukast mjög verulega. Uppsafnað viðbótarfjárfestingarrými, ef maður getur orðað það svo, er gríðarlega mikið á áætlunartímabilinu.

Svo vegna þess að menn tína til einstaka fjárfestingarverkefni sem gjarnan hefðu mátt vera inni í áætluninni vil ég vekja athygli á því að það er talsvert mikið svigrúm í áætluninni vegna óvissu. Ófyrirséðir liðir eru töluvert fyrirferðarmiklir og geta, ef við lendum ekki í neinum áföllum, orðið eins og eins konar varasjóður fyrir tímabilið til ráðstöfunar eftir atvikum ef ekkert annað óvænt kemur upp á. Þá geta komið til skoðunar einstaka framkvæmdir eða jafnvel aðrar áherslur stjórnvalda þess tíma.