145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

ný skógræktarstofnun.

672. mál
[19:40]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í fyrri ræðu minni finnst okkur afar mikilvægt að geta skapað betra umhverfi fyrir skógarauðlindina. Hvort sem við erum að tala um að rækta fjölnytjaskóga eða skjólbelti, treysta byggð eða efla atvinnulíf er skógræktin afar mikilvæg í því sambandi. Ég vil benda á að skógur eða tré fara ekki í burtu þannig að samstarf við skógarbændur er náttúrlega gríðarlega mikilvægt. Ef eitthvað er þá stendur hugur minn og ráðuneytisins líka til að efla það starf. Við ætlum ekki að minnka getu skógarbænda eða hefta þá, þvert á móti. Mér finnst einn mikilvægasti þátturinn í þessu hafa verið sá að þetta starf er til þess fallið að bæta byggð og efla atvinnulíf vítt og breitt um landið. Skógarbændur hafa sinnt miklu og góðu starfi. Það samstarf viljum við efla eins og við getum.