145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

ný skógræktarstofnun.

672. mál
[19:41]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta frumkvæði og óska henni og mínum góðu félögum í umhverfis- og auðlindaráðuneyti til hamingju með þetta mál. Þessi sameining hefur lengi verið mér hugleikin og það vill svo til að sem gamall fjárgæslumaður ríkissjóðs er ég áhugasamur um að fé ríkissjóðs sé nýtt sem allra best og þess vegna sveið mér það lengi að það skyldu vera í öllum landsfjórðungum tveir vinnustaðir eða tvær starfsstöðvar sem í sjálfu sér voru að eiga við svipuð eða sömu verkefni. Nú er ég ekki að lasta störf þeirra ágætu manna og kvenna sem hafa unnið fyrir landshlutaverkefnin í skógrækt, síður en svo, eða stjórnirnar sem yfir þeim voru, en þetta skref hefur ekki einasta í för með sér betri nýtingu á fé með því að yfirstjórn og öll stjórnun verður á einni hendi heldur verður slagkraftur þessarar greinar miklu meiri en áður var, faglegur slagkraftur. Menn geta eftir þessa sameiningu væntanlega sinnt enn betur sínum verkefnum, fjölgað þeim, sérhæft sig, þannig að þetta mál er jákvætt hvar sem á að það er litið.

Ég vil geta þess líka að með þessari breytingu tel ég alveg einsýnt að einnig verði að gaumgæfa þá samninga sem þegar eru í gangi um skógræktarverkefni í hinum ýmsu landshlutum vegna þess að upphaflega voru þetta jú samningar sem voru til þess fallnir að bændur í hefðbundnum búskap gætu lagt hann af ef þeim þannig sýndist og tekið við verkefnum á þessu sviði í staðinn. Þetta var hins vegar ekki hugsað til þess, alla vega ekki eins og ég hef skilið málið, að á lögbýlum væri stunduð skógrækt af einhverjum frístundabændum eða há-eff-um. Þess vegna vil ég hvetja eindregið til að þessari breytingu fylgi sú hugarfarsbreyting að menn muni gaumgæfa enn betur þann þátt sem snýr að lögbýlum í byggð, sem eru setin.

Að öðru leyti hef ég svo skilið að samráð við þetta verkefni og samstarf hafi verið með besta móti eins og minnar ágætu samstarfskonu, hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur, er von og vísa og hún á heiður skilinn fyrir það og kemur engum á óvart sem hana þekkir að þetta hafi gengið vel hjá henni. En ég hvet aftur til þess að menn gaumgæfi landshlutaverkefnin, eins og hér segir í athugasemdum, með leyfi forseta:

„Eins gerir frumvarpið ráð fyrir að í stað ákvæðis um skipun stjórna landshlutaverkefna verði kveðið á um samráð við félög skógarbænda varðandi áherslur og framkvæmd viðkomandi landshlutaverkefnis …“

Þetta er einmitt það sem ég var að ræða hér áðan, að menn hverfi aftur til þess tíma þegar fyrstu samningarnir voru gerðir. Ég tel að bráð nauðsyn sé á því að allir þeir samningar sem nú eru í gildi verði yfirfarnir með það fyrir augum að fé það sem fer til þessara framkvæmda nýtist enn betur.

Góðu fréttirnar í þessu máli eru náttúrlega þær að þeir peningar sem áður fóru í að halda uppi tvenns lags stjórnunarteymum fara nú til aukinnar skógræktar sem við fögnum öll vegna þess að það hefur sýnt sig síðan skógræktin fór að beita sér og bændur við að græða skóg á Íslandi að það er vel hægt að rækta skóg á Íslandi. Ég man eftir því þegar ég kom til starfa í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu á sínum tíma og hitti skógræktarbændur þá komst maður að nýrri tímamælingu, kannski ekki alveg sömu tímamælingu og jarðfræðingar þekkja, en þegar ég lýsti þeirri skoðun minni að það væri í sjálfu sér óvinnandi vegur að rækta skóg á Íslandi, hér væri svo kalt að þetta tæki svo langan tíma, horfðu skógræktarmenn framan í mig skilningsvana og sögðu: Nei, það er ekkert erfitt að rækta skóg á Íslandi, það tekur ekki nema svona 100 ár. [Sími þingmanns hringir.] — Ég biðst afsökunar á þessu, hann vill ekki einu sinni slokkna. Þar sem ég var staddur í tímanum þá lét nútíminn náttúrlega vita af sér.

Við höfum tekið eftir því að í nytjaskógum á Íslandi þá er fyrsta grisjun eftir 20 ár og við erum að fá ágætar afurðir úr skógum víða eftir 20 ár, sem er náttúrlega ótrúlega stuttur tími, og fyrir utan það eins og við öll vitum þá hefur skógrækt bæði til sveita og í borgum og bæjum breytt veðurlagi eins og skógar auðvitað gera. Þannig að það er ekkert nema jákvætt við þetta mál. Ég vona að sú nefnd sem við málinu tekur taki því vel og fari rækilega yfir það og afgreiði það fljótt og vel til þess að þetta framfaramál geti fengið fljóta og góða afgreiðslu. Ég endurtek hamingjuóskir mínar til hæstv. ráðherra og starfsfólks umhverfis- og auðlindaráðuneytis.