145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[20:14]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, nr. 60/2007. Lög um Vatnajökulsþjóðgarð tóku gildi 1. maí 2007. Í ákvæði til bráðabirgða í lögunum er kveðið á um að ákvæði laganna um stjórnfyrirkomulag þjóðgarðsins skuli eigi síðar en 1. janúar 2013 endurskoðuð í samstarfi ríkis og sveitarfélaga.

Stjórnfyrirkomulagið var nýjung í stjórnun friðlýstra svæða í landinu og byggist á valddreifðu fyrirkomulagi með virkri aðkomu sveitarstjórna og félagasamtaka. Vegna stærðar þjóðgarðsins, en hann er um 14% af flatarmáli landsins og sá stærsti í Vestur-Evrópu, var stjórnun hans óhjákvæmilega mjög viðamikið verkefni þar sem fjölbreyttir hagsmunir og ólík sjónarmið eru viðfangsefni.

Í janúar 2013 skipaði þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra starfshóp til að fara yfir stjórnfyrirkomulag þjóðgarðsins og gera tillögur til breytinga ef þurfa þætti til samræmis við bráðabirgðaákvæði laganna. Starfshópurinn vann að sinni úttekt í víðtæku samráði og efndi til opinna funda innan rekstrarsvæða þjóðgarðsins í sinni vinnu. Starfshópurinn skilaði greinargerð til ráðherra í ágúst 2013 sem jafnframt var kynnt öllum þeim átta sveitarstjórnum sem aðild eiga að þjóðgarðinum. Frumvarp það sem ég mæli nú fyrir er byggt á tillögum hópsins, auk þess sem litið er til ábendinga Ríkisendurskoðunar er fram koma í skýrslu stofnunarinnar um rekstur og stjórnskipulag þjóðgarðsins frá ágúst 2013.

Að auki eru í frumvarpinu lagðar til aðrar breytingar á lögunum með hliðsjón af rekstri þjóðgarðsins frá gildistöku laganna. Er þar einkum um að ræða breytingar vegna samspils laganna, reglugerðar og stjórnunar- eða verndaráætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs. Jafnframt eru lögð til ný ákvæði um leyfisveitingar vegna ýmiss konar atburða, framkvæmda og starfsemi innan þjóðgarðsins auk annarra lagatæknilegra breytinga.

Ég mun nú gera grein fyrir þeim breytingum sem lagðar eru til á stjórnfyrirkomulagi þjóðgarðsins. Starfshópur um endurskoðun stjórnfyrirkomulags Vatnajökulsþjóðgarðs kannaði viðhorf helstu aðila til stjórnfyrirkomulags þjóðgarðsins með því að óska eftir afstöðu þeirra til ákveðinna atriða. Spurningar sem lagðar voru fyrir viðkomandi aðila voru:

1. Hvernig finnst þér hafa tekist með stjórnun Vatnajökulsþjóðgarðs?

2. Mundir þú vilja leggja til breytingar á núverandi fyrirkomulagi stjórnunar Vatnajökulsþjóðgarðs?

3. Aðrar ábendingar til starfshópsins varðandi stjórnfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs.

Til að tryggja aðkomu almennings voru sömu spurningar settar á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins þar sem almenningi gafst færi á að senda inn svör.

Í niðurstöðum kemur fram að valddreift stjórnfyrirkomulag þjóðgarðsins hafi í meginatriðum reynst vel, samstarf hafi verið náið á milli ríkis og sveitarfélaga og hagsmunaaðilar haft mikla aðkomu að ákvörðunum sem hafa verið teknar. Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að skýra betur nokkra þætti, þá sérstaklega hvað varðar verkaskiptingu, valdmörk og ábyrgð einstakra aðila innan stjórnkerfisins. Tengist það valdmörkum sjö manna stjórnar sem hefur yfirumsjón með rekstri þjóðgarðsins, framkvæmdastjóra, þjóðgarðsvarða og svæðisráða.

Í ljósi þessa og með hliðsjón af ábendingum Ríkisendurskoðunar er því í frumvarpinu lagt til að kveðið verði skýrar á um skipun framkvæmdastjóra þjóðgarðsins í lögunum. Hlutverk hans verði að annast daglegan rekstur í umboði stjórnar, auk þess sem hann mun bera ábyrgð á að þjóðgarðurinn starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli, ábyrgð á fjárreiðum þjóðgarðsins og yfirstjórn starfsmannamála. Hlutverk þjóðgarðsvarða verður áfram að annast daglegan rekstur, starfsmannahald og stjórn viðkomandi rekstrarsvæðis í samráði við framkvæmdastjóra.

Að auki er í frumvarpinu kveðið á um að eitt af hlutverkum þjóðgarðsvarða verði að vinna rekstrar- og framkvæmdaáætlanir fyrir viðkomandi rekstrarsvæði í samráði við framkvæmdastjóra, en það er nýtt ákvæði í lögunum. Áfram er tryggt að valddreifða stjórnfyrirkomulagið haldi sér en á sama tíma að skýrar verði kveðið á um að ábyrgð á fjármálum og starfsmannamálum muni á endanum liggja hjá framkvæmdastjóra.

Aðrar breytingar á stjórnfyrirkomulagi eru m.a. þær að kveðið verði á um að annar fulltrúi umhverfis- og auðlindaráðherra í stjórn skuli hafa fagþekkingu á verksviði þjóðgarða. Krafa um fagþekkingu á verksviði þjóðgarða er eðlileg, en ekkert í stjórnskipulagi þjóðgarðsins tryggir að slík fagþekking sé til staðar innan þess. Vil ég þó benda á að fagþekking telst ekki eingöngu þekking á rekstri þjóðgarða heldur getur verið um að ræða þekkingu á skipulagsmálum, ferðaþjónustumálum, náttúruverndarmálum og öðrum málum sem tengjast daglegum rekstri og starfi í þjóðgarðinum. Til að viðkomandi fagþekking nýtist í starfi þjóðgarðsins verður að telja að hún falli undir fagþekkingu á verksviði þjóðgarðsins.

Ég vík nú að öðrum breytingum í frumvarpinu sem varða ekki stjórnfyrirkomulag þjóðgarðsins. Þær tillögur sem liggja fyrir um breytingar á öðrum ákvæðum laganna en II. kafla eru lagðar fram í kjölfar þeirrar reynslu sem skapast hefur frá því að lögin tóku gildi árið 2007, m.a. breytingar er lúta að samspili reglugerðar og verndaráætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs. Verndaráætlunin hefur í raun stöðu reglugerðar sem stjórn vinnur einna mest eftir.

Þá hefur reynsla síðustu ára dregið fram að nauðsynlegt er að kveða skýrara á um hvaða háttsemi, starfsemi og atburðir eru háðir leyfisveitingu stofnunarinnar. Full þörf er því á að skýra ákvæði um gjaldtöku varðandi atburði, framkvæmdir og starfsemi innan þjóðgarðsins.

Í frumvarpinu eru lögð til ný ákvæði um leyfisveitingar vegna skipulagðra viðburða og verkefna sem kalla á aðstöðu, mannafla eða meðferð tækja inna þjóðgarðsins. Að auki er kveðið á um að þjónustuaðilar sem hyggjast reka starfsemi í þjóðgarðinum skuli gera samning um það og verður að setja þau skilyrði fyrir starfseminni að verndarmarkmið þjóðgarðsins sé haft í huga. Með auknum fjölda ferðamanna hefur aðsókn ferðaþjónustuaðila í að reka starfsemi innan þjóðgarðsins aukist svo um munar. Einstök náttúra svæðisins laðar ferðamenn að með tilheyrandi álagi og gæðin eru takmörkuð. Því er ljóst að nauðsynlegt er að vernda svæðið með hliðsjón af verndarmarkmiðum þjóðgarðsins. Verður það haft að leiðarljósi og eðlilegt skref að kveða á um það þegar sótt er um leyfi. Aðrar breytingar í frumvarpinu leiða af þeim breytingum sem ég hef nú rakið hér í stuttu máli.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni þessa frumvarps og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.