145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[20:24]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir þessi orð hv. þingmanns. Ég mun skoða það og gott að vísa því líka með til nefndarinnar. Það er ekki bara Steingrímur J. Sigfússon sem sagði þetta, við endurskoðun á Skógræktinni tókum við undir það og settum þessa festu varðandi höfuðstöðvar Skógræktarinnar. En það er sjálfsagt að koma því fyrir og ég tek undir hvert orð sem þingmaðurinn viðhafði hér. Ég held að það sé mun betra að framkvæmdastjóri sé á heimasvæði og verður það eflaust tekið til skoðunar næst þegar ráðinn verður framkvæmdastjóri.

Heimasvæði Vatnajökulsþjóðgarðs er mjög víðfeðmt og nær yfir 14% landsins eins og við höfum getið um þannig að það getur líka skapað dálítinn óróleika hvort framkvæmdastjóri á að sitja fyrir norðan, austan eða sunnan í þjóðgarðinum.