145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

dagsetning kosninga.

[15:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Vinnu við gerð fjárlagafrumvarpsins verður fram haldið. Vinna við gerð fjárlagafrumvarpsins er blanda af framreikningi ýmissa stærða á grundvelli hagspár, sem kemur reglulega út, og síðan pólitískum ákvörðunum, leiðsögn sem er að finna í lögum o.s.frv. Við munum gera allt sem okkur ber að gera til þess að undirbúa fjárlög fyrir næsta fjárlagaár.

Í sjálfu sér eru það praktísk útfærsluatriði sem hv. þingmaður spyr um sem við viljum gjarnan eiga gott samtal og samstarf við stjórnarandstöðuna um, þ.e. hvernig viljum við haga þingstörfunum fram á haustið? Hvenær ætti að ganga til kosninga samkvæmt því sem við erum hér að ræða? Við höfum verið mjög opin með það. Við höfum rætt það á mörgum fundum með stjórnarandstöðunni. Til að byrja með var krafan sú að kosið yrði strax. Greidd voru atkvæði um það hér í þinginu. Það var fellt. Við óskum eftir því að þingstörfin geti gengið eðlilega fyrir sig í millitíðinni. En síðan (Forseti hringir.) gerist þetta væntanlega þannig, þegar að því kemur, að (Forseti hringir.) forsætisráðherra leggur fram þingrofstillögu og (Forseti hringir.) það ákvörðunaratriði hversu lengi þingið starfar eftir það. Svo er gengið til kosninga.