145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

skipan stjórnar Orkubús Vestfjarða.

[15:14]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég gat ekki heyrt annað í fréttum í morgun en akkúrat þetta, að fjármálaráðuneytið hefði viðurkennt að það væri brot á lögum að eingöngu einn varamaður hefði verið skipaður í stjórn og að menn þar teldu að það þyrfti að bæta úr því. Það kom fram að breyta þyrfti lögum því að menn teldu að ekki væri þörf á nema einum varamanni í stjórn svo hæstv. ráðherra verður að kynna sér þetta betur.

Mér finnst mjög mikilvægt að fá fram hvort hæstv. ráðherra ætli sér að reyna að horfa til þess að það séu fleiri sjónarmið en eingöngu pólitísk sjónarmið þeirra flokka sem eru við stjórnvölinn hverju sinni. Svo virðist vera gagnvart þessari stjórn og ýmsum öðrum sem falla undir opinber hlutafélög. Það er mjög mikilvægt að horfa til þess að fleiri komi lýðræðislega að þeim málum og þó að flokkarnir kæmu að þessu ættu þeir að horfa til þess að faglega yrði skipað í stjórnir (Forseti hringir.) eins og þá sem ég nefni hér. Ég bendi á að þingflokkar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar hafa skotið því máli til Ríkisendurskoðunar að skoða tiltekna stjórnunarhætti hjá Orkubúi Vestfjarða.