145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

skipan stjórnar Orkubús Vestfjarða.

[15:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og ég gat um var mér ekki kunnugt um að einhverju hefði verið ábótavant á síðasta aðalfundi Orkubúsins hvað varðar kosningu fleiri varamanna. Ég sat ekki þann fund. Þegar aðstæður hafa krafist þess hef ég tilnefnt fólk í stjórnina. Ég hef ekki beitt mér fyrir sérstökum breytingum og ætla ekki að taka þátt í þessari umræðu undir þeim formerkjum að þar starfi fólk ekki á faglegum grundvelli.

Síðan er sjálfsagt að velta fyrir sér hvernig við eigum að skipa almennt í stjórnir ohf.-félaga. Svo virðist sem venjur eða hefðir hafi myndast á þinginu um samráð flokka í tiltekin félög á meðan þær venjur og hefðir hafa ekki tekið til annarra félaga. Þessu er misjafnlega farið í stjórnkerfinu.