145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

breytingar á útlánareglum LÍN.

[15:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna tók þá ákvörðun að gefnu tilefni að kalla til utanaðkomandi aðila til að fara yfir og rannsaka hver væri framfærslukostnaður í mismunandi löndum — af því að hann er mjög mismunandi. (Gripið fram í.) Stefnan er skýr, sú að lána í samræmi við framfærslukostnað. Þess vegna hafði í sumum löndum verið lánað undir framfærslukostnaði og þá var bætt þar úr. Það var gert í einu skrefi. Það er stefnan. Ég reikna með að hv. þingmaður sem nú er í framboði til forustu fyrir jafnaðarmannaflokkinn sé mér sammála um að það eigi að nýta peningana og fjármuni skattgreiðenda sem best til að tryggja jöfnuð þannig að við lánum í samræmi við framfærslukostnaðinn í hverju landi. Varla er hv. þingmaður þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að það eigi að vera einhver mismunur þar á.

Þá stöndum við eftir með deilu um það hvort þetta séu rétt gögn eða ekki. Að sjálfsögðu erum við alltaf opin og til viðtals um gögnin, tilbúin að hlusta á allar röksemdir um þau. Ef menn geta með sannfærandi og rökstuddum hætti sýnt fram á að það standi einhvers staðar öðruvísi af sér en menn ætla í þessum gögnum taka menn að sjálfsögðu tillit til þess. Nema hvað?

En ég ætla að hv. þingmaður, forustumaður í jafnaðarmannaflokki á Íslandi, sé mér sammála um að við eigum að nota fjármunina til að ná fram sem mestum jöfnuði þannig að við lánum í samræmi við framfærsluþörfina. Er einhver önnur stefna möguleg, virðulegi forseti?