145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga.

[15:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna tækifærinu til þess að ræða hér um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga í tilefni af þeim gögnum sem mest hafa verið til umræðu að undanförnu. Vil ég byrja á því að taka fram að íslensk stjórnvöld eru og hafa verið í alþjóðlegu samstarfi sem miðar að því að koma í veg fyrir skattsvik af hvers kyns tagi í gegnum aflandsfélög, enda lengi legið fyrir að þar er um að ræða alþjóðlegt vandamál. Á slíkum svæðum hefur peningaþvætti þrifist og margir hafa nýtt sér það fyrirkomulag sem þar hefur verið samþykkt til þess að skjóta undan skattlagningu eignum og tekjum.

Með virkri þátttöku Íslands í samstarfi OECD-ríkjanna um að þróa sameiginlegan staðal um upplýsingaskipti um fjármálalegar eignir og tekjur af þeim er Ísland í hópi þeirra ríkja sem hafa forgöngu haft um aðgerðir. Ísland er í forgöngu þeirra ríkja sem ákveðið hafa upptöku staðalsins. Ég hafði ánægju af því á sínum tíma að taka þátt á sameiginlegum fundi OECD-ríkjanna til að reka endahnútinn á það samstarf. Reyndar vil ég taka fram af því tilefni að OECD á mikinn heiður skilinn fyrir þá áherslu sem samtökin hafa sýnt þessu máli eða sem lögð hefur verið á þessi mál. Ég nefni í fyrsta lagi erlenda samstarfið.

Í öðru lagi nefni ég þátttöku Íslands í svokallaðri BEPS-aðgerðaáætlun sem unnið er að sömuleiðis á vegum OECD en einnig G20-ríkjanna. Sú áætlun miðar að því að samhæfa aðgerðir þátttökuríkja gegn skattundanskotum og skattsvikum.

Í þriðja lagi vil ég nefna öfluga þátttöku Íslands í samstarfi Norðurlandanna um gerð upplýsingaskiptasamninga við lágskattaríki, en 44 slíkir samningar eru í höfn.

Allt þetta samstarf hefur þegar skilað miklum árangri, bæði hér á landi og á alþjóðavísu í baráttunni gegn skattsvikum og sömuleiðis peningaþvætti, en slík iðja leiðir gjarnan til skattsvika eða öfugt, eins og nýleg dæmi hérlendis sanna. Sumir þessara samninga tryggja sjálfvirkni í upplýsingagjöfinni, aðrir samningarnir tryggja að við getum farið fram á upplýsingar ef einhverjar ástæður eru til þess. En allt eru þetta aðgerðir sem miða að því að svipta burt leyndinni og komast að því hvað er á seyði.

Þessu alþjóðlega samstarfi til viðbótar vil ég nefna að íslensk stjórnvöld tóku, eins og þekkt er orðið, tímamótaskref á síðasta ári þegar Alþingi veitti fjármagn til kaupa á skattagögnum frá útlöndum til frekari úrvinnslu hjá skattrannsóknarstjóra. Þessi kaup hafa víða vakið athygli og hafa íslensk stjórnvöld verið lofuð fyrir það framtak.

Mér finnst rétt að fram komi að á þeim tíma sem upplýsingar lágu fyrir um að mögulegt væri að kaupa gögnin var í ráðuneyti mínu eingöngu spurt að því hvort skattrannsóknarstjóri teldi eitthvert gagn að því fyrir meginstarfsemi embættisins að fá gögnin keypt. Við gerðum aldrei ágreining um verðið. Við gengum út frá því á sínum tíma að verðið yrði allt að fimmfalt það sem á endanum varð niðurstaðan. Embættið bar hitann og þungann af öllum samskiptum vegna þessa máls og gerði vel í því að ná niðurstöðu sem gagnast hefur embættinu og þar með stjórnvöldum í þessari baráttu. Þessi gögn innihalda að stofni til svipaðar upplýsingar og hin margumtöluðu Panama-skjöl, nema hvað umfang fjárhagslegra eigna og fjöldi eignaraðila er jafnvel enn meiri í Panama-skjölunum en í skjölunum sem keypt voru.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum og víðar eru þessi gögn nú í vinnslu. Það hefur meðal annars komið fram fyrir þingnefnd. Gögnin eru í vinnslu bæði hjá skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra. Það er brýnt og það fær forgang þar að úr þeim verði unnið eins fljótt og auðið er. Mun sá sem hér talar gera allt sem í hans valdi stendur til að flýta fyrir úrvinnslu gagnanna sem kostur er, hvort heldur um er að ræða nauðsynlegar lagabreytingar eða stuðning við skattframkvæmdina. Við höfum þegar átt skrifleg samskipti við embættin og boðið fram hvers kyns aðstoð í þessum tilgangi. Þannig höfum við gert embættunum ljóst að fjármála- og efnahagsráðuneytið er reiðubúið til viðræðna við þau um ráðstafanir til að þau geti komist yfir sem fyllstar upplýsingar um eignir þeirra sem eru framtalsskyldir hér á landi. Þetta gildir bæði um úrvinnslu þeirra gagna sem þegar hafa verið keypt og önnur gögn sem mögulegt yrði að afla.

Varðandi verkefnin fram undan vil ég láta þess getið að í tilefni af skriflegum samskiptum við embættin hafa ráðuneytinu þegar borist ítarleg svör frá umræddum stofnunum, að mörgu leyti sambærileg þeim sem efnahags- og viðskiptanefnd þingsins fékk á sínum tíma. Nú er unnið að undirbúningi aðgerðaáætlunar á grundvelli þeirra upplýsinga sem við höfum fengið frá embættunum og með hliðsjón af öðrum atriðum sem málið varða. Það má segja að aðgerðaáætlunin sé þríþætt. Í fyrsta lagi hefur þegar verið óskað eftir tilnefningu fulltrúa í sérstakan starfshóp sem kynntur var í ríkisstjórn 29. apríl síðastliðinn til að gera tillögur að breytingum á lögum, reglugerðum eða verklagsreglum sem saman mundu mynda almenna aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda gegn skattundanskotum, skattsvikum, peningaþvætti og nýtingu skattaskjóla almennt.

Útfærsla á sameiginlegum tillögum OECD og G20-ríkjanna, eða hin svokallaða BEPS-aðgerðaáætlun, verður hluti af vinnu starfshópsins. Í þeim hópi verða fulltrúar úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu en einnig úr forsætisráðuneytinu, frá ríkisskattstjóra, frá skattrannsóknarstjóra og tollstjóra. Þá vænti ég þess að starfshópurinn eigi samráð við peningaþvættisskrifstofu héraðssaksóknara enda eru þessi brot þannig vaxin að þau geta verið af sama meiði og ég gat um fyrr í ræðu minni.

Ég sé það þannig fyrir mér að starfshópurinn hefði gagn af því að funda með efnahags- og viðskiptanefnd, að nefndin hefði gagn af því að fá upplýsingar um með hvaða hætti starfshópurinn hyggst nálgast verkefnið. Ég mundi líka vilja leggja upp með það að greið leið væri frá nefndinni til starfshópsins. Ef það eru sérstakar áherslur, jafnvel þvert á flokka úr þinginu, sem menn vilja leggja inn í starf nefndarinnar er ég talsmaður þess að það sé mögulegt.

Ég hef lagt upp með það að starfshópurinn skili skýrslu með tillögum sínum til ríkisstjórnarinnar eigi síðar en 30. júní næstkomandi.

Í öðru lagi verður sérstöku teymi með aðkomu utanaðkomandi sérfræðinga falið að gera mat á umfangi fjármagnstilfærslna og undanskota á aflandssvæðum samhliða því að áætla tekjutap hins opinbera af slíkri starfsemi. Segja má að þetta sé ekki ósvipuð hugmyndafræði og birtist í tillögu sem liggur fyrir þinginu frá þingmönnum Vinstri grænna. Við höfum skyldur til þess að draga fram og skýra hvert umfang skattsvikanna var. Hvert er umfang vandans? Hversu mikið tapast? Hversu algengt var að þetta félagaform, þessi lönd, þessi svæði, væru nýtt til þess að skjóta sér undan íslenskum lögum? Það finnst mér sjálfsagt og eðlilegt að kanna. Mér finnst það frumskylda okkar að gefnu þessu tilefni núna að taka það út sérstaklega og verður það meginverkefni þessa sérstaka teymis sem ég hyggst fela þetta hlutverk þannig að við getum haft betri grundvöll undir umræðu um umfang vandans.

En það verður að segjast alveg eins og er að allt frá hruni hafa flogið fyrir alls konar fullyrðingar um það hversu miklu við höfum tapað sérstaklega í skatttekjum vegna félaga á þessum svæðum með skattsvikum. Ég nefni bara tölur sem ég hef gripið úr umræðunni á undanförnum árum. Ég hef heyrt að það væru 300 milljarðar sem biðu sanngjarnrar skattlagningar einhvers staðar í Karíbahafi. Ég hef líka heyrt nýlega að menn telji að skattsvikin nemi tugum milljarða á ári. Ég veit ekki hver sannleikurinn er. Ég hef almenna tilfinningu fyrir því að þetta kunni að vera dálítið ýktar tölur, sérstaklega að það bíði okkar 300 milljarðar einhvers staðar. Mér finnst það nú fullmikið í lagt og leyfi mér að hafa efasemdir um það. En að því marki sem hægt er að nálgast sannleikann í þessu finnst mér við þær aðstæður sem uppi eru núna við hafa sérstaka skyldu til þess að gera allt sem hægt er til þess að komast að hinu sanna í þessu efni.

Ég hef væntingar til þess að hægt sé að setja þetta í mikinn forgang og að niðurstöðurnar gætu legið fyrir sem fyrst, helst um mitt þetta ár. En ég verð samt að segja eins og er að maður rennir aðeins blint í sjóinn með það hversu mikla tímapressu raunhæft er að setja starfshópnum.

Í þriðja lagi vil ég greina frá því að nú er unnið að gerð frumvarps þar sem er að finna ýmsar tillögur frá skattstofnununum þremur sem ég tel unnt að hrinda í framkvæmd án frekari undirbúnings. Það frumvarp mun ég leggja fyrir ríkisstjórn og í framhaldinu fyrir Alþingi innan fárra daga. Ég tel mikilvægt að halda því til haga að ég legg áherslu á að samþykkt lagabreytinga strax er liður í hinni almennu aðgerðaáætlun sem ég kynni hér.

Ég ætla síðan að ljúka máli mínu á því að segja að ég tek eftir hugmyndum um að við beitum viðskiptaþvingunum til að ná enn meiri árangri. Ég tel í því sambandi nauðsynlegt fyrir okkur að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um slíkar viðskiptaþvinganir. Ég tel að viðskiptaþvinganir Íslands einangraðar muni ekki miklu ná fram og ég lít þannig á að menn séu að ræða um viðskiptaþvinganir gegn þeim ríkjum sem neita þátttöku í upplýsingagjöf. Það mundi ég styðja heils hugar.