145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga.

[16:03]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir skýrslu hæstv. fjármálaráðherra og vil fyrst segja að þessi umræða hefur þróast allnokkuð í þinginu og tónninn breyst frá því að fyrstu afhjúpanirnar í Panama-skjölunum voru hér til umræðu og hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn héldu því fram að þetta væri ekkert sem þyrfti að ræða sérstaklega. Ég minni líka á að þegar þessi mál komu fyrst til umræðu fannst einhverjum við hæfi að tala um þingmenn lágkúrunnar en eftir því sem umræðan hefur þróast og þroskast finn ég, og ég leyfi mér að fagna því, að æ fleiri hv. þingmenn sjá að þetta er stórt og mikilvægt viðfangsefni því að það snýst um ákveðinn kjarna í samfélaginu. Það snýst um það að aðilar nýta sér aflandsfélög í skattaskjólum til að geyma fjármuni sína til þess ýmist að komast hjá skattgreiðslum eða nýta sér þá staðreynd að í þessum skattaskjólum eru aðrar reglur en við höfum ákveðið í okkar samfélagi, oft litlar reglur sem engar, og þannig má segja að þessir aðilar komi sér hjá þeim reglum sem við sem lýðræðislegt samfélag höfum sett okkur.

Þess vegna vil ég meina að notkun skattaskjóla grafi ekki aðeins undan velferðarsamfélaginu, sem er kannski stærsta ástæðan fyrir því að alþjóðastofnanir á borð við OECD hafa skorið upp herör gegn þessari starfsemi, heldur grefur slík starfsemi líka undan lýðræðissamfélaginu. Af hverju segi ég það? Af því að fólk velur að fylgja ekki þeim reglum sem samþykktar eru af kjörnum fulltrúum á hverjum tíma í okkar vestrænu samfélögum og nýtir sér leyndina og regluleysið á þessum svæðum til að komast hjá þeim reglum.

En það er jákvætt að þessi umræða hefur þroskast. Ég fagna orðum hæstv. ráðherra áðan um að ríkisstjórnin sé að undirbúa aðgerðaáætlun þar sem hann vitnaði til tillögu okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um sérstaka rannsókn, að það væri mikilvægt að rannsaka umfang aflandsfélaganna og áhrif þeirra á íslenskt samfélag. Ég er ekki í nokkrum vafa um að sé það skoðað hefur það áhrif á allt samfélagið, líka þann hluta samfélagsins sem við köllum atvinnulíf. Auðvitað skekkir það samkeppnisstöðu þeirra sem nýta sér ekki starfsemi aflandsfélaga að starfa á sama markaði og þeir sem nýta sér slík félög og þau hlunnindi sem því fylgja.

Ég vona að við séum komin fjarri þeirri hugsun að tala um aflandsfélög sem hluta af heilbrigðu viðskiptaumhverfi. Það er ekkert heilbrigt við slíka notkun. Ég fagna því að mér finnst skilningurinn á þessu máli vera að aukast.

Hér var rætt um skattsvik og skattundanskot og hvert umfang þeirra er. Það er alveg ljóst að það eru skattsvik og skattundanskot sem snúast ekkert um aflandsfélög í samfélaginu. Það er fullt af skattsvikum í öðrum geirum og erfitt að áætla hver nákvæmlega hlutur skattaskjólanna er í þeim efnum. Það er auðvitað reikningsstærð en það hefur verið áætlað af ríkisskattstjóra að árleg skattundanskot á Íslandi séu 80 milljarðar. Það er alveg risavaxin tala. Við erum búin að ræða í mörg ár um að byggja nýjan Landspítala, meðferðarkjarna fyrir 50 milljarða. Það er sem sagt bara hluti af skattundanskotum. Við erum að ræða um gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu, hvað það kosti að gera heilbrigðiskerfið sem hæstv. heilbrigðisráðherra leggur fram tillögu um að jafna greiðsluþátttöku í, og síðan koma fram tölur um að það að afnema þá greiðsluþátttöku kosti 6,5 milljarða — en við erum að tala um 80 milljarða í skattundanskot.

Það ætti auðvitað að vera forgangsverkefni okkar allra hér inni að komast fyrir þessi skattundanskot því að þau grafa undan velferðinni en þau grafa líka undan þeirri hugsun að við búum í samfélagi. Einhvern tímann sagði bandarískur hæstaréttardómari þau fleygu orð að skattar væru gjaldið sem við greiddum fyrir að búa í siðuðu samfélagi. Páll Skúlason heitinn, heimspekingur, lagði út af þessum orðum í ágætri grein sem hann birti einmitt í tímariti ríkisskattstjóra, Tíund, og sagði að skattur væri framlag okkar til félags sem hefði farsæld okkar allra og komandi kynslóða að leiðarljósi. Umræðan um skattaskjólin sýnir okkur að skattar eru ekki bara tæknilegt úrlausnarefni eins og mér finnst umræðan stundum snúast um, þetta sé spurning um að stilla af einhverjar prósentur hér og þar, þetta er þvert á móti heimspekilegt og pólitískt viðfangsefni og snýst um það hvernig samfélag við viljum byggja. Þegar fólk segir sig frá því samfélagi með því að fylgja öðrum reglum, þó að það sé ekki ólöglegt, vekur það spurningar um hvort við séum þá í raun og veru að byggja siðað samfélag.

Þetta er grundvallarspurning, herra forseti. Ef Panama-skjölin og afhjúpanirnar í þeim mega verða til þess að við setjum slíkar grundvallarspurningar á dagskrá ættum við bara að fagna því og ég fagna því að frjálsir fjölmiðlar hafa orðið til þess að þessum upplýsingum var lekið því að þær færa okkur áþreifanlega heim sanninn um eitthvað sem við höfum vissulega lesið um í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sýna okkur áþreifanlega hvernig þetta hefur verið gert og hvernig þetta hefur verið stundað. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur til að geta tekist á við þessa spurningu.

Hæstv. ráðherra ræddi talsvert um aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar, að efnahags- og viðskiptanefnd gæti síðan verið höfð með í ráðum og boðaði frumvarp sem væntanlega mun snúast um þær ábendingar sem stofnanir ríkisins, eins og ríkisskattstjóri og skattrannsóknarstjóri, hafa komið með á undanförnum dögum og vikum, m.a. til efnahags- og viðskiptanefndar, um hvað sé hægt að gera og hvernig sé hægt að breyta löggjöfinni til að taka betur á þessum málum. Það er margt hægt að gera. Það kom fram á tveimur fundum nefndarinnar sem voru haldnir með þessum stofnunum. Ýmislegt er hægt að gera til að auðvelda okkur að eiga við vandann ef við erum sammála um að það þurfi að taka á honum, sem ég vona að við séum.

En ég legg áherslu á að Alþingi sé með í ráðum því að mér finnst þetta ekki bara snúast um aðgerðir stofnana og stjórnvalda, þetta snýst líka um að Alþingi sem stofnun taki þessa umræðu og að þverpólitískt samráð verði haft um þær aðgerðir sem eigi að ráðast í. Panama-skjölin og þær upplýsingar sem þar koma fram, nú síðast um forseta lýðveldisins, en áður um hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni og fleiri aðila, hafa auðvitað haft gríðarleg áhrif á orðspor Íslands úti í hinum stóra heimi en hafa líka grafið mjög undan trausti hér í samfélaginu. Það er kannski stærsta viðfangsefni okkar sem störfum á Alþingi Íslendinga að endurreisa traustið.

Því vil ég segja að lokum, því að tími minn er á þrotum, að nú reynir á hvernig Alþingi Íslendinga tekur á þessu máli. Ég átta mig alveg á því að framkvæmdarvaldinu kann að finnast best að halda þessum málum hjá sér en ef okkur á að takast að byggja upp traust á stofnunum samfélagsins og stjórnmálunum eftir þessi stórtíðindi held ég að það reyni mjög á hvernig við vinnum á Alþingi Íslendinga.