145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga.

[16:24]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga. Í ræðu hæstv. fjármálaráðherra var komið mikið inn á skattsvik, að við þyrftum að ná þessum skatti aftur heim. En það var ekki mikið rætt um það uppgjör sem við þurfum að gera, ástæðuna, forsenduna fyrir því að geta náð skattinum heim og þar fram eftir götunum.

Ég held að það þurfi ekki að minna fólk á það en það varð hér hrun. Þetta hrun varð árið 2008. Það kemur skýrt í ljós í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem ég er búin að lesa í bak og fyrir að íslensk bankakerfi var holað að innan. Núna fáum við að sjá hvernig það var gert. Núna fáum við að sjá hvernig hver einasti fjármagnseigenda var sendur til Panama, til þess að eiga í einhverjum viðskiptum á Seychelles-eyjum, eins og t.d. hæstv. fjármálaráðherra reyndi nú að gera, eða þá að geyma fjölskylduauð sinn á Tortólu eins og hæstv. fyrrverandi ráðherra og núverandi hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem er í leyfi, gerði.

Aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga þarf að setja í samhengi við hrunið og þær aðgerðaáætlanir sem voru gerðar í kjölfar þess. Það þarf að taka rannsóknarskýrsluna og þær niðurstöðum sem koma þar fram alvarlega. Mér finnst ekki hafa vera mikið gert í því. Í skýrslunni er ítrekað rætt um að hér hafi verið léleg vinnubrögð. Það er ítrekað sýnt fram á gerræðislegar ákvarðanir. Það er ítrekað minnst á hvernig pólitíkusar taki ekki ábyrgð. Það er ítrekað minnst á að skyldur einstakra stofnana eða embættismanna hafi ekki verið nógu skýrar. Þetta er eitthvað sem við þurfum að laga í samhengi til þess að við getum farið í aðgerðir varðandi aflandsfélög því að þetta helst allt í hendur.

Mig langar líka að tala um það sem kemur fram í rannsóknarskýrslu Alþingis varðandi hvernig framkvæmdarvaldið hagar sér. Framkvæmdarvaldið í þessari ríkisstjórn og þeirri síðustu hefur farið offari. Það hefur ekki verið mikið samráð með minni hlutanum. Það hefur verið tilkynningasamráð að mestu leyti. Verða aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga svona tilkynningasamráð? Eða fáum við eitthvað að segja um það? Í skýrslunni segir Valgerður Sverrisdóttir fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 15. október 2009, með leyfi forseta:

„Framkvæmdarvaldið var náttúrlega mjög dómínerandi í þinginu á þeim tíma.“

Þetta er eitthvað sem við þurfum að laga til þess að við getum talað um það hvernig við ætlum að bregðast við skattaskjólum. Þessi aflandsfélög og það sem er búið að koma upp um er nátengt því sem varð til þess að hér varð hrun árið 2008. Mér finnst að sú kynslóð sem er hér inni að mestu skilji ekki hvaða afleiðingar þetta hefur haft í för með sér. Við höfum verið að ræða menntamál í þinginu í óundirbúnum fyrirspurnum þar sem er verið að skera niður gagnvart námsmönnum af minni kynslóð út af því að gullaldarkynslóðin, sem fæddist um 1960 og fór með offorsi um íslenskt bankakerfi, fær bara að gera það sem henni þóknast. Á hverjum bitnar þetta? Þetta bitnar á öldruðum, bitnar á ungum, bitnar á öllum öðrum en þeim sem komust með skattinn sinn undan og tekjur sínar undan til aflandsfélaga af því að það er svo öruggt.

Það er margt sem þarf að gera. Í sjálfu sér er mjög gott og jákvætt að við tökum þátt í alþjóðlegu samstarfi um aðgerðir gegn aflandsfélögum. En þau viðbrögð og sú birtingarmynd á íslenskri pólitík sem hefur átt sér stað undanfarinn mánuð og vikur hefur verið til háborinnar skammar. Við erum að sjá að annar hver maður og mamma þeirra áttu aflandsfélög (Gripið fram í: Pabbi þeirra.) til að geyma auð sinn eða reyna að komast undan sköttum.

En það sem mér finnst mjög mikilvægt er að pólitíkin taki sig á. Að stjórnmálaflokkarnir, þessi hefðbundnu öfl, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn og fleiri í þeim dúr, taki sig til og komi með nýja stefnu. Það hefur verið í stefnu Sjálfstæðisflokksins og er meðal annars reifað hér í 5. kafla í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að eftirlitsstofnanir séu íþyngjandi. Trekk í trekk í tuttugu ár var þetta málið. Getum við fengið það fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að eftirlitsstofnanir séu nauðsynlegar til þess að eiga heilbrigt fjármálakerfi? Getum við fengið það frá hæstv. fjármálaráðherra? Getum við hætt þessari nýfrjálshyggjuhugmyndafræði um að fyrirtæki geti haft siðferðislegar kenndir til að gera hið rétta? Það hefur bara komið í ljós að þau geta það ekki. Fyrirtæki munu fara þangað sem skattbyrðin er lægst. Þeirra markmið er gróði. Markmið þeirra er ekki að standa vörð um mannréttindi. Við þurfum að fá þetta á hreint af því að við getum ekki treyst og ég get ekki treyst fjármálaráðherra sem finnst t.d. eftirlitsstofnanir vera íþyngjandi.

Ég fagna alþjóðlegu samstarfi en að sama skapi óska ég líka eftir pólitískri ábyrgð og ég óska eftir skýrum svörum. Þau svör sem við höfum fengið hafa verið hist og her, maður veit ekkert, botnar hvorki upp né niður í þeim. Ég óska eftir skýrum svörum um það hvort stefna Sjálfstæðisflokksins hafi loksins breyst. Eru eftirlitsstofnanir loksins orðnar nauðsynlegur hluti af fjármálasamfélaginu?