145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga.

[16:31]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég heyrði áðan hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur segja að umræðan hefði þroskast frá því að Panama-skjölin komu fram. Ég held að það sé rétt að hluta. Hún hefur þroskast aðeins í samfélaginu en mér finnst hún ekki hafa þroskast mikið hjá stjórnarandstöðunni á þingi. (SJS: … Þetta er fínt hjá ykkur.) Umræðan hér er alltaf afvegaleidd. Það er alltaf verið að grauta öllu saman, skyldu og óskyldu, allt í pólitískum tilgangi. Ég geri enga sérstaka athugasemd við það í sjálfu sér en þetta er auðvitað veruleikinn. Það skiptir miklu máli hvort um er að ræða skattsvik, skattundanskot, eða hvort menn eru í eðlilegum viðskiptum þótt um lágskattasvæði sé að ræða, hvers eðlis þau eru o.s.frv. Á þinginu er enginn áhugi hjá stjórnarandstöðunni á að gera einhvern greinarmun. Nei, allir skulu vera dæmdir sem einhvers staðar komu nálægt einhverju lágskattasvæði. Þetta er ekki málefnaleg umræða, hún er í raun villandi og það er verið að afvegaleiða alla.

Ég skynja að í samfélaginu er almenningur búinn að átta sig á því að þar á er mikill munur. Skattsvik eru mikið mein. Það er algerlega óþolandi að sumir sem nýta alla þá samneyslu sem er í boði greiði ekki skatta eins og aðrir. Þetta raskar samkeppni. Þetta er gróðrarstía fyrir skipulagða glæpastarfsemi, hryðjuverk o.s.frv. Það er mikilvægt að finna ráð til að uppræta þetta eða stemma stigu við því eins og hægt er.

Hvert er lykilatriðið í því? Það er upplýsingagjöf. Það er samstarf þjóðanna þannig að hægt sé að fá upplýsingar. Lágskattasvæði eða lönd þar sem eru lægri skattar eru í sjálfu sér ekki endilega meinið. Við lifum í alþjóðlegu samfélagi, menn eru að fjárfesta og eru í viðskiptum um allan heim.

Hvað er lágskattasvæði? Hvar er leynd? Miðað við daginn í dag er sem sagt minni leynd og meiri upplýsingagjöf víða í eyjum við Tortólu en í Hong Kong, Delaware í Bandaríkjunum, Lúxemborg og Sviss. Það þarf alþjóðlegt samstarf til að uppræta vandann. Hugsanlega þurfum við að einhverju leyti að skoða okkar eigin löggjöf. Er hægt að gera betur þar? Auðvitað eru ýmsar hugmyndir uppi sem vert er að skoða en við verðum líka að fara varlega og fara ekki í einhverjar vanhugsaðar breytingar sem geta kannski verið til meiri skaða en hitt.

Ég ítreka að það er óþolandi og ég trúi því að Alþingi og stjórnmálamenn nú og í framtíðinni skoði þessi mál mjög vel, fari yfir þetta með okkar helstu samstarfsríkjum til að koma í veg fyrir það mein sem skattsvik og skattundanskot eru.