145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga.

[16:45]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir að skýra hér frá aðgerðaáætlun stjórnvalda vegna aflandsfélaga. Það er vissulega jákvætt að stjórnvöld skuli upplýsa þingið um framgang þessa mikilvæga verkefnis. Það er einnig jákvætt sem fram kom í máli hæstv. utanríkisráðherra að stjórnvöld hafa tekið fullan þátt í átaki með öðrum þjóðum gegn skattaskjólum, til dæmis á vettvangi Norðurlandanna, OECD og ESB.

Það er því miður ekki hægt að segja hið sama um öll vestræn ríki. Þar nægir að nefna Sviss, Lúxemborg, Möltu, Bandaríkin, Hong Kong og svo má lengi telja. Allt of mörg virðuleg ríki láta það viðgangast að erlendir aðilar geti stofnað þar félög sem greiða mjög lága eða litla skatta og gera litlar kröfur um að eigendur félaganna séu þekktir. Þetta atriði með að eigendur félaga séu þekktir er einmitt nokkuð sem við sjálf þurfum að laga hjá okkur.

Því fagna ég skipan starfshóps sem skila mun niðurstöðum fyrir lok júní en í þeim starfshópi verða fulltrúar ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra, tollstjóra, fjármálaráðuneytisins og forsætisráðuneytisins. Ég tek undir með hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að það gæti verið ágætt og gagnlegt ef hópurinn mundi koma á fund efnahags- og viðskiptanefndar meðan á vinnu hans stendur.

Eins og fram hefur komið hélt efnahags- og viðskiptanefnd opna fundi til að kynna sér sjónarmið og ábendingar skattyfirvalda og ráðuneytisins. Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun ræddi nefndin drög að skýrslu nefndarinnar um málið. Ég bind vonir við að nefndin geti sameinast um innihald slíkrar skýrslu og skilað af sér í næstu viku. Hugmyndin er að skýrslan gefi yfirlit yfir þær ábendingar sem nefndinni bárust frá skattyfirvöldum um lagabreytingar sem gætu hamlað því að íslenskir aðilar nýti sér skattaskjól í framtíðinni. Sumar af þeim ábendingum eru einfaldar og aðgengilegar að útfæra en aðrar kalla á frekari undirbúning eins og við er að búast.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra boðaði einmitt í ræðu sinni að unnið væri að frumvarpi með lagabreytingum sem hægt væri að ráðast í strax og slíks frumvarps væri að vænta á næstu dögum. Mér þykja það nokkur tíðindi og fagna því mjög. Það sýnir að ríkisstjórninni er full alvara í því að taka á þessum vanda og gera það af röggsemi. Ég vænti þess að þingmenn allir og einkanlega þingmenn efnahags- og viðskiptanefndar muni fagna öllum lagabreytingum sem gagnast gegn skattaskjólum.

Umræðan hér í dag sýnir í raun og veru einhug meðal þingmanna og ríkan vilja til að vinna gegn þeim vanda sem fylgir skattaskjólum. Ég trúi því að sambærileg vakning sé meðal þingmanna í fleiri löndum. Þess vegna bind ég vonir við að hið alþjóðlega samstarf fái nú meiri kraft en hingað til hefur verið.

Vandinn af skattaskjólum er ekki bara skattundanskotin sem grafa undan velferðarsamfélaginu, sem er vissulega mikið og alvarlegt vandamál, heldur einnig leyndin sem er nýtt í ýmsum ólögmætum tilgangi og laðar óprúttna aðila að löndum. Ísland þarf að vera í fararbroddi alþjóðlegs samstarfs gegn skattaskjólum. Það mun skila árangri þegar og ef samstaða næst. En það er líka mikilvægt og kannski enn mikilvægara að við höfum frumkvæði að því að lagfæra okkar eigin löggjöf til að taka á vandanum. Til þess eru fjölmörg tækifæri. Með því að sýna gott fordæmi getum við bætt ímynd landsins og aukið traust alþjóðasamfélagsins á efnahagslífi okkar. Ísland hefur því miður tengst skattaskjólsumræðunni í heiminum á mjög neikvæðan hátt undanfarnar vikur. (Gripið fram í: Og daga.) Og daga. Þess vegna þurfum við Íslendingar að sýna frumkvæði svo eftir verði tekið. Það er hægt. Skýrsla hæstv. ráðherra í dag og umræðan hér, sem hefur verið mjög fróðleg og málefnaleg að mestu leyti, vekur vonir um að Ísland geti svo sannarlega orðið góð fyrirmynd í þessum efnum. Ég sem þingmaður, og að ég held allir aðrir hv. þingmenn, er tilbúinn að leggja mitt af mörkum til að svo megi verða.