145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga.

[16:50]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Frú forseti. Ríkisstjórn Íslands sýnist mér ætla að gera það í kjölfar Panama-skjalanna sem var fullkomlega eðlileg krafa að hún gerði varðandi Panama-skjölin. Panama-skjölin og umræðan um aflandsfélög eru alger leikbreytir í stjórnmálunum, svo reynt sé að þýða hugtak sem kallað hefur verið, með leyfi forseta, „game changer“. Upplýsingarnar sýna okkur tvískiptan veruleika fólks sem tekur annars vegar fullan þátt í samfélaginu sem það býr í og hins vegar fólk sem telur það siðferðilega verjandi að halda undan því hlutfalli af tekjum og eignum sem það ætlar öðrum að leggja til samfélagsins.

Það hlýtur að breyta því hvernig við tölum um heilbrigðismál, menntamál og aðra uppbyggingu samfélagsins því að þetta snýst um megininntak samfélagsins. Við erum hópur ólíkra einstaklinga sem rekum saman skóla, sjúkrahús, stofnanir svo tryggt sé að mannsæmandi þjónusta sé í boði fyrir alla, óháð tekjum og félagslegri stöðu. Það hlýtur að hafa þau áhrif á umræðuna og pólitíkina að við veltum því fyrir okkur hvort við viljum hafa í forustu fyrir samfélag okkar fólk sem ekki tekur þátt í rekstri þessara stofnana og þarf jafnvel ekkert á þeim að halda. Þessi umræða sýnir okkur að til er fólk í efstu opinberu stöðum samfélagsins sem finnst í lagi að geyma fjármuni sína í skattaskjólum. Það stendur á sama tíma í vegi fyrir eða dregur lappirnar þegar kemur að því að standa að nauðsynlegum endurbótum og uppbyggingu samfélagsins sem allir aðrir en þeir sjálfir þurfa á að halda.

Það er annað sem opinberast í þessari umræðu og verður svo augljóst og er auðvitað augljóst og þarf ekki að segja upphátt. En engu að síður í ljósi þess sem verið hefur: Það er algjört lykilatriði fyrir okkur sem tökum þátt í stjórnmálum og bjóðum okkur fram til opinberra trúnaðarstarfa fyrir almenning að segja alltaf satt, að segja aldrei ósatt. Fólk verður að geta treyst því þegar hæstv. fjármálaráðherra er spurður um tengingar við aflandsfélög og hann segir nei, að hann sé að segja satt. Algert lykilatriði.

Annað sem þetta vekur hugsanir um er umræðan um skatta. Nú hafa hægri menn og sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn keppst við það í áratugi og gera enn, að halda því fram að skattar séu vondir. Skattar séu eitthvað sem eigi undir öllum eðlilegum kringumstæðum að reyna að hafa eins lága og mögulegt er. Í því felst að það sé einhvers konar áþján að þurfa að borga skatta. En nú hefur sú umræða breyst að því leytinu til að sjálfstæðismenn keppast við það eins og allir aðrir að segja að það megi enginn vera undanþeginn þeim. Það eigi allir að borga skatta. Það eigi enginn að nota skattaskjól og skjóta sér undan því að taka þátt í sameiginlegum rekstri samfélagsins. En auðvitað er sá andi sem birtist í þeim upplýsingum sem við höfum nú fengið og sá fjöldi fólks sem hefur tekið þátt í því að stofna aflandsfélög og geyma sína fjármuni annars staðar, í skattaskjólum, angi af þessu sama hugarfari, að það sé á einhvern hátt mjög neikvætt að greiða skatta, sé á einhvern hátt mjög eðlilegt að reyna eftir fremsta megni að haga sínum málum þannig að maður borgi sem minnst af þeim.

Þessi umræða sýnir okkur að skattarnir eru auðvitað ekkert annað en sjúkrahúsin, skólarnir, þær stofnanir sem við höfum komið okkur upp til þess að reka sameiginlega þannig að allir geti haft jafnan aðgang að þeim grundvallarmannréttindum sem í þessum stofnunum felast.

Ég velti fyrir mér hvaða upplýsingar eigi eftir að koma fram. Er hæstv. fjármálaráðherra búinn að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessum efnum? Eru hér þingmenn sem enn eiga eftir að koma í ljós í þessum skjölum? Sem tengjast aflandsfélögum með einhverjum hætti, sem mögulega hafa verið styrktir af aflandsfélögum? Það eru auðvitað spurningar sem maður hlýtur að spyrja í ljósi þess sem komið hefur í ljós. Í þeirri umræðu um það sem opinberast hefur í tengslum við Panama-skjölin hafa menn sem orðið hafa uppvísir að því að tengjast þessum aflandsfélögum keppst við að segja: Ja, það er að sjálfsögðu allt eðlilegt og löglegt og greiddir skattar af öllu því sem þarna var og í rauninni græddum við ekki neitt á þessu. Það var okkur öllum til mikils ama að hafa tekið þátt í þessu.

En hvaða vissu höfum við fyrir því? (SII: Enga.) Hvað höfum við nema orð þeirra fyrir því að svo sé? Og hvers virði eru þau orð þegar þau eru skoðuð í samhengi þess sem gerst hefur hér á síðustu dögum þegar menn hafa trekk í trekk orðið uppvísir að því að segja beinlínis ósatt, að muna ekki hvar og hvort þeir hafi tengst svona félögum eða ekki? Hvers virði eru þau orð? Það traust sem hvarf í garð þessara stjórnmálamanna við þessa upplýsingagjöf hefur auðvitað áhrif á alla pólitíkina, allar stofnanir samfélagsins. Það traust verður ekki endurnýjað nema í kosningum.