145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga.

[17:04]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir það frumkvæði að skipa starfshóp um þetta brýna mál, hóp sem falið er að skoða skattsvik og sérstaklega með tilliti til aflandsfélaga. Ég tek undir þau orð hv. þingmanna sem fjallað hafa um þetta mál, skattsvik í aflöndum, sem sérstaka meinsemd og ætla ekki að orðlengja það neitt frekar. Ég held að það sé þverpólitísk sátt um þá meinsemd sem er í þeim efnum.

Skattsvik hafa oft verið skoðuð og þeir hv. þingmenn sem þaulsetnastir eru í þessum sal þekkja það að skýrslur um skattsvik hafa verið kynntar hér. Það var nú gert nokkuð reglulega hér á árum áður. Síðasta skýrsla sem ég tel að lögð hafi verið fram um þetta efni er frá árinu 2004, sérstök skýrsla um skattsvik. Það er ánægjulegt að sjá að hæstv. fjármálaráðherra gerir einmitt ráð fyrir að að minnsta kosti einn úr starfshópnum frá 2004 muni taka sæti í þeim starfshópi sem nú hefur verið skipaður. Það gefur ágæta samfellu sem oft er nauðsynleg í þessu sambandi.

Það vakti athygli mína þegar ég skoðaði skýrsluna frá árinu 2004 að þar er reynt að leggja mat á umfang skattsvika. Um það hefur svolítið verið fjallað í dag og hafa einhverjar tölur verið nefndar í því sambandi. Árið 2004 var það mat starfshópsins að tapaðar tekjur vegna skattsvika, sem hlutfall af skatttekjum allra opinberra aðila, væru á bilinu 5–8%. Það er auðvitað gríðarlega mikið. Það vakti athygli mína að því var skipt þannig niður að þyngst vógu skattsvik af svokallaðri svartri starfsemi hér innan lands. Þar á eftir komu skattsvik vegna bókhaldsbrota og á svipuðu róli voru skattsvik vegna erlendrar starfsemi, á bilinu 1–2%. Það væri áhugavert að sjá í þeirri vinnu sem nú fer fram einhverja greiningu á þeim nótum því að ég tel mjög mikilvægt að menn fái góða yfirsýn yfir það á milli tíma og tískusveiflna, ef við getum orðað það svo. Á þeim tíma þegar síðasta skattsvikaskýrsla var lögð fram þá var, ef ég man rétt, nokkuð í tísku að stofna aflandsfélög eða félög í svokölluðum skattaparadísum, eins og það var kallað þá. Sú skattsvikaskýrsla sem ég nefni frá árinu 2004 fjallaði sérstaklega um að skattaparadísir og skattaívilnanir gætu átt rétt á sér.

Það var nú andinn árið 2004. Og einmitt á þeim tíma þegar skýrslan kom fram var, svo dæmi sé tekið, stofnað félag sem menn hafa nú í dag viljað skýra sem eðlilega starfsemi, félag á vegum Landsvirkjunar á Bermúda, uppáskrifað frá skattyfirvöldum, þeim sömu og gerðu skattsvikaskýrsluna 2004. Ég man ekki betur en að hv. þm. Helgi Hjörvar hafi þá setið í stjórn Landsvirkjunar.

Fyrrverandi hæstv. viðskiptaráðherra í síðustu ríkisstjórn lýsti því nýverið að það geti vissulega átt rétt á sér að stofna félög í þessum svokölluðu aflöndum. Það er mjög til fyrirmyndar að það verði skoðað hér áfram. Ég held að það sé ágætt að hafa vinnu gamalla starfshópa um skattsvikaskýrslur aðeins til hliðsjónar þannig að hægt verði að greina til dæmis hvað það er sem breyst hefur frá árinu 2004 til dagsins í dag í þessum efnum.

Virðulegi forseti. Ég vil því að lokum beina því til hæstv. fjármálaráðherra að þrengja ekki um of að erindi þessa starfshóps sem nú hefur störf svo hægt verði að hafa sem mest gagn af vinnu hans.