145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga.

[17:10]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Þetta er dagskrárliðurinn „Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra (sem átti fyrirtæki í skattaskjólum) um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga“. Ríkisskattstjóri metur það sem svo að um 80 milljörðum sé skotið undan skatti, sviknir af samfélaginu árlega, og þar inni eru áætlanir vegna eigna í svokölluðum skattaskjólum eða aflandsfélögum. Það eru um 12% af tekjum ríkissjóðs á yfirstandandi ári. Með þessum tekjum mundi hverfa fjármögnunarvandi vegna heilbrigðismála, almannatrygginga, háskóla, framhaldsskóla og lögreglu. Við ættum meira að segja svolítinn pening eftir þegar búið væri að leggja það til sem þyrfti þarna inn. Hér eru gríðarlegir samfélagslegir hagsmunir í húfi og þetta er skýringin á þeirri reiði sem ríkir í samfélaginu yfir því að yfir okkur hafi verið kölluð sú vansæmd að vera orðin heimsfræg fyrir hátt hlutfall eigna í skattaskjólum.

Við ræðum nú skýrsluna um hvernig við ætlum að vinna gegn þessari ógn við samfélagið okkar. Hverjir hafa ætlað sér að leiða þá vinnu? Hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson, sem átti fyrirtæki í skattaskjóli, og hæstv. forsætisráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson, sem lýst hefur velþóknun sinni á slíku eignarhaldi, meðal annars hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra og framkvæmdastjóra Framsóknarflokksins. Báðir hafa þó yfirgefið hlutverk sín. Það þótti hæstv. forsætisráðherra nú miður en hann virti samt ákvörðun þeirra. Þetta eru mennirnir sem ætla að leiða vinnu gegn aflandsfélögum á Íslandi. Það sjá það allir að slíkt gengur ekki upp því að eftir höfðinu dansa limirnir.

Ef við ætlum að vinna eins og hægt er gegn skattundanskotum, skattsvikum hér á landi, erlendis og í aflandsfélögum þurfum við að hafa trúverðuga einstaklinga í forsvari fyrir þeirri vinnu. Þess vegna vil ég biðja hæstv. fjármálaráðherra að segja af sér embætti því að hann nýtur ekki trausts hjá almenningi hér á landi sem er sár yfir því að stolið sé peningum úr okkar sameiginlegu sjóðum.

Ég vil biðja hæstv. forsætisráðherra að taka hlutverk sitt alvarlega og koma fram með dagsetningu fyrir kosningar. Við þurfum kosningar og við þurfum ný stjórnvöld hér á landi sem hafa þann trúverðugleika til að bera að hér sé hægt að berjast gegn skattsvikum og fjárglæfraspillingu, þeirri fjárglæfraspillingu sem afhjúpuð var þjóðinni í frægum Kastljóssþætti í upphafi aprílmánaðar, þætti sem við höfum ekki enn bitið úr nálinni með. Við eigum mikla vinnu fyrir höndum en hún verður ekki leidd af núverandi ríkisstjórn.