145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga.

[17:14]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hóf mál sitt á því að segja að íslensk stjórnvöld væru og hefðu alltaf verið í fararbroddi alþjóðlegs samstarfs um baráttu gegn skattaskjólum. Ansi nær minni hæstv. fjármálaráðherra skammt aftur. Hvað gerðu íslensk stjórnvöld á árunum 1995–2007 í þessum efnum? Hver var hin hetjulega frammistaða? Var ekki verið að breyta Íslandi í gagnstæða átt, setja lög um alþjóðleg fjárfestingarfélög í skattabómull hérna heima? Var ekki skattsvikaskýrslum sem menn mæra hér stungið ofan í skúffu og ekkert gert með þær? Það var nefnilega lagt til strax á árunum 2002–2004 að taka upp CFC-reglur en það var ekki gert. Það þurfti nýja ríkisstjórn 2009 sem loksins fór að taka á þessum málum með því að setja CFC-reglur, með því að herða á einkahlutafélagalöggjöfinni, með því að tvöfalda fjármagnstekjuskatt og með því að hefja þátttöku í víðtæku samstarfi um gerð upplýsingasamninga. Stór hluti þeirra 44 samninga sem ráðherra stærir sig af voru gerðir í tíð þeirrar ríkisstjórnar.

Hefur orðræðan batnað eitthvað síðustu dagana og vikurnar? Já, ég hélt það kannski — en þó. Þá koma hv. þingmenn Sigríður Andersen og Brynjar Níelsson og ég sé ekki að neitt hafi breyst. Ef það verður sannað að menn hafi svikið undan skatti eða brotið lög er þetta ekki nógu gott, en hvað eru menn annars að röfla um þetta? Ef það að orkufélög eins og Landsvirkjun hafi stofnað félag erlendis til að kaupa tryggingar, birt öll árin í sínum reikningum og að hafa setið í stjórn þess félags einhvern tímann er orðið jafngildur glæpur öðru því sem við horfum hérna upp á, eins og reynt er að draga inn í umræðuna, hefur umræðan ekki batnað.

Frú forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að ég verð svo brjálaður af reiði inni í mér stundum þessa daga þegar ég fylgist með umfjöllun erlendra fjölmiðla um Ísland að ég ræð varla við mig. Hvers á Ísland að gjalda að þurfa að fara aftur og aftur nýjan og nýjan hring í alþjóðlegri umfjöllun í þessu hryllilega sviðsljósi? Átta menn sig ekki á því hvernig þetta er þegar umheimurinn horfir á okkur? Látum vera að við eigum heimsmet í þeirri geðslegu íþrótt að stofna aflandsfélög, en á listunum og í tengslum við þetta eru forsætisráðherrann, sem reyndar er farinn, forseti lýðveldisins, þjóðhöfðinginn, og fjölskylda hans, fjármálaráðherra og innanríkisráðherra, borgarfulltrúar í höfuðborginni sem annar hefur reyndar sagt af sér og hinn er í leyfi. Það vantar ekkert nema að forseti Hæstaréttar, Alþingis og biskupinn yfir Íslandi séu líka á listanum, þá væri þetta fullkomnað. Þetta gengur ekki. Við verðum að taka það alvarlega hvernig þetta leikur okkur. Höfðum við þó ekki úr háum söðli að detta, land sem var með sitt orðspor í rúst í lok árs 2008 og hefur tekið hægt og bítandi mikinn tíma og orku að reyna aðeins að byggja það upp.

Þó hafa góðir hlutir gerst. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis vorið 2010 um fall bankanna var góð fyrir Ísland. Hún vakti athygli. Vegna hvers? Vegna þess að hún sýndi að Ísland ætlaði ekki að líta undan. Það er eins í þessu máli, við verðum að senda umheiminum skýrt þau skilaboð að við ætlum ekki að líta undan. Fullgild, opinber rannsókn á vegum Alþingis með rannsóknarnefnd sem hefur þær víðtæku heimildir sem lögin fela henni á að vera eitt stóra skrefið í því. Því til viðbótar mundi heimurinn taka eftir því ef það gerðist að hæstv. fjármálaráðherra bæðist lausnar og forseti lýðveldisins drægi til baka framboð sitt til endurkjörs. Þannig gætu menn orðið landi sínu að gagni við þessar aðstæður. Ég hvet menn til að sitja ekki slímsetu við stólana þegar það má vera hverju mannsbarni ljóst að þeir eru að skaða landið sitt með því.