145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga.

[17:54]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Í gær var Ísland til umræðu á forsíðu eins helsta dagblaðs Þýskalands eða vefútgáfu. Ísland og íslenskir ráðamenn eru um allan heim, alla Evrópu, notaðir í kynningum um umfjallanir um Panama-skjöl, aflandsfélög, það sem við getum í raun og veru einfaldlega kallað óheiðarleika í viðskiptum og tengsl óheiðarlegra viðskipta við stjórnmálamenn. Ég lenti í viðtali við þýska sjónvarpskonu fyrir helgina. Hún spurði mig í miðju viðtalinu spurningarinnar: „Nú er ljóst að Íslendingar áttu fleiri aflandsfélög miðað við mannfjölda en nokkrir aðrir. Hvað veldur þessari græðgismenningu? Hvað er það við íslenska þjóð sem gerir það að verkum að hún virðist spilltari en aðrar þjóðir?“

Ég verð bara að viðurkenna að það kom mér virkilega í opna skjöldu. Það runnu hugsanir í gegnum höfuðið á mér, við íslenskir stjórnmálamenn erum ekki vanir að fá svona spurningar. Maður er ekki vanur að hugsa um Ísland og Íslendinga út frá þeim formerkjum vegna þess að ég held að þjóðarsál Íslendinga sé ekki svona. Heiðarleiki er mikils metinn á Íslandi, í íslenskum bókmenntum, í íslenskri þjóðarvitund. Það sýnir sig að þær upplýsingar sem eru að koma í ljós, þetta heimsmet okkar í þátttöku í aflandsfélögum, þessi tenging hæstu ráðamanna þjóðarinnar við starfsemi sem er í besta falli á dökkgráu svæði þar sem verið er að opna á leyndarhyggju og mögulega og ekki bara mögulega, það hefur margsýnt sig að stór hluti af starfsemi aflandsfélaga er gerður til þess að koma fé undan skatti, að eitthvað er að í samfélagi sem verður uppvíst að slíku og við látum öll eins og þetta komi okkur stórkostlega á óvart, vegna þess að það gerir það. Ég held að við séum að upplifa sjokk yfir ákveðinni meðvirkni við forréttindahugsun sem hefur þótt sjálfsögð allt of lengi á Íslandi, í íslensku viðskiptalífi og nú sannar sig að tengist meira að segja kjörnum fulltrúum og leiðtogum landsins sem ættu að vera fyrirmyndir.

Þegar Ísland lokaði allri flugumferð í Evrópu bjuggu íslensk stjórnvöld til myndband þar sem Íslendingar dönsuðu og stripluðust til að sýna hvað þeir væru hressir, hvað við værum í alvörunni glaðlynt og gott fólk. Ég spyr: Hvað ætlum við að gera núna?

Það er gott og mikilvægt að heyra að Ísland taki þátt í öllu samstarfi og allri vinnu til að koma í veg fyrir skattsvik og aflandsfélagabix. Það ætti að vera sjálfsagt á sama hátt og okkur finnst algjörlega sjálfsagt að Ísland sé í fararbroddi í allri baráttu fyrir mannréttindum. Við þurfum að taka ábyrgð á því sem gerst hefur og því sem komið hefur í ljós.

Ég segi fyrir mitt leyti sem alþingismaður, kjörinn fulltrúi hérna, að ég fyllist djúpri skömm, þó svo að ég kannist ekki við það sjálfur að eiga tengingar við svona félög, yfir því að taka þátt í stjórnsýslu og vera í fyrirsvari í samfélagi þar sem menn eru að gefa í skyn að það sé jafnvel eðlilegt að kjörnir fulltrúar tengist svona bixi. Ég hef heyrt fulltrúa Sjálfstæðisflokksins koma hingað upp og tala eins og það sé ekki svo alvarlegt vegna þess að aðrir hafi gert það, vegna þess að hlutir séu hræðilegir í Danmörku, vegna þess að einhvern tímann hafi verið talað um það í Orkuveitu Reykjavíkur að stofna aflandsfélag sem var síðan aldrei stofnað. (Gripið fram í: Það var samþykkt í stjórninni.) En var aldrei stofnað. (Gripið fram í: Það var samþykkt.) Hvar er auðmýktin í þessu? Hvernig getum við tekið á þessum málum og ætlast til þess að vera tekin alvarlega ef við erum föst í því að sjá ekkert að því vegna þess að einhver annar gerði eitthvað? (Gripið fram í.) Það er ekki í boði.