145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

grunnskólar.

675. mál
[18:17]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni athugasemdina og vil segja: Hugsunin er ekki sú með nokkrum hætti með ákvæðinu að leggja grunn að einhverjum skólum sérstaklega sem eru eins og hv. þingmaður orðar það, með leyfi forseta, elítuskólar. Það sem hér er um að ræða er að ákvæði í alþjóðlegum sáttmálum sem Ísland hefur undirgengist inniheldur það að einstaklingar hafi rétt á því að stofna skóla. Hafi viðkomandi aðili uppfyllt öll almenn skilyrði um skólahald en síðan standi þannig á að sveitarfélagið vilji ekki gera samning, þá getur viðkomandi aðili fengið samþykki menntamálaráðuneytisins eða viðurkenningu um að viðkomandi aðili fullnægi öllum skilyrðum. Í þeirri viðurkenningu felst hvorki fyrirheit né nokkur krafa fyrir viðkomandi aðila á gjöld eða fjárframlög frá opinberum aðilum heldur einungis sú sjálfsagða krafa sem ég tel enn og aftur leiða af alþjóðlegum skuldbindingum Íslands, að menn hafi rétt til þess að stofna slíka skóla. Það reynir reyndar ekki oft á slíka stöðu og er ekki þess að vænta að þetta verði algengt viðfangsefni. En ég tel rétt að hafa þetta skýrt í lögum, að menn geti leitað til ráðuneytisins ef sveitarfélag einhverra hluta vegna, jafnvel með ómálefnalegum hætti, vill ekki ganga til neinna samninga, en að sveitarfélag hafi slíkan rétt. Það er enginn sem getur þvingað sveitarfélögin til að ganga til samninga vegna þess að sveitarfélagið hlýtur að horfa til þeirrar meginstefnu sem það hefur til þess að tryggja gott skólastarf og réttindi barna um aðgengi að skóla, en ef sveitarfélagið vill ekki gera neinn samning við viðkomandi aðila þá getur hann snúið sér til ráðuneytisins og fengið viðurkenningu í það minnsta á því að skólinn standist skilyrðin. Það tel ég skynsamlegt.