145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

málefni ferðaþjónustunnar.

[13:43]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í ferðaþjónustuna núna af því að við erum að fara inn í sumar sem verður kannski eitt það stærsta. Það tók hæstv. ráðherra töluverðan tíma að koma saman frumvarpi um náttúrupassa sem virðist hafa farið í gegnum þingflokkana gagnrýnislaust vegna þess að þegar það komst síðan inn í þingið var enginn stuðningur við það. Mér fannst þetta ekki alvitlaus leið, var kannski jákvæðari en margir aðrir, en hins vegar hefur líka verið talað um komugjöld og jafnvel hvort hægt sé að setja komugjöld yfir háannatímann.

Síðan hefur ekkert gerst í þessu. Náttúrupassinn sofnaði ofan í skúffu einhvers staðar og það eina sem ég veit er að það á að hækka gistináttagjaldið úr 100 kr. í 300 kr. Síðan var sett á Stjórnstöð ferðamála og ég hef alltaf lúmskt gaman af því þegar Sjálfstæðisflokkurinn býr til ný opinber embætti þó að ég viti að það sé að hluta til greitt af ferðaþjónustunni. Það átti að vera eitthvað mjög mikilvægt og var það kannski, ég geri ekki lítið úr því, en nú heyrast fréttir af því að sá sem var ráðinn þangað án auglýsingar sé að hætta, ef ég skil rétt. Þá hljótum við að spyrja: Hvað verður nú? Á að ráða nýja manneskju, kannski þá jafnvel að auglýsa, reyna að fá manneskju sem er tilbúin að vera þarna í lengri tíma? Er einhver árangur af Stjórnstöð ferðamála? Má kannski ímynda sér að setja þetta verkefni inn í Ferðamálastofu eða hvernig er það?

Mig langar aðeins að heyra hvað hæstv. ráðherra hefur verið að brasa í þessum málum og hvort henni finnist við tilbúin fyrir ferðamannasumarið 2016.