145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

málefni ferðaþjónustunnar.

[13:48]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir svörin. Gott að heyra að starfið verður auglýst. Það er ástæða fyrir því að við erum að fara að ræða á eftir öryggismál í ferðaþjónustunni og öryggi ferðamanna. Þetta er stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar og mér finnst utanumhaldið um hann ekki mikið. Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir, þetta kemur inn á marga þætti. Öryggismálin eru stór þáttur. Við erum með samgöngukerfi, þjóðvegi landsins, sem ferðamennirnir þvælast um. Vegirnir eru ekki alls staðar í nógu góðu ástandi. Það er átroðningur á viðkvæmum svæðum. Það er jafnvel svört atvinnustarfsemi. Þetta eru endalausar áskoranir, síðast en ekki síst að það séu næg salerni til að taka á móti öllum þessum fjölda ferðamanna. Ef ég heyri fleiri fréttir um að ferðamenn séu að gera þarfir sínar úti um hvippinn og hvappinn í sumar er það vísbending um að hæstv. ráðherra hafi ekki staðið sig í stykkinu.

Ef við getum ekki einu sinni (Forseti hringir.) reddað salernum fyrir ferðamenn sem hingað koma spyr ég: Getum við yfir höfuð tekið við öllum þessum fjölda? Þetta er lágmarksþjónusta.