145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

upplýsingar um reikninga í skattaskjólum.

[13:51]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Í gær kl. 18 var opnað fyrir gagnagrunn um þá einstaklinga sem hafa opnað reikninga í skattaskjólum. Í tilefni þess og vegna umræðunnar sem hér hefur átt sér stað um skattaskjól langaði mig að beina nokkrum spurningum til hæstv. fjármálaráðherra.

Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann hafi einhverjar kenningar um það af hverju svo margir Íslendingar hlutfallslega, hvort heldur það eru einstaklingar eða fyrirtæki, hafi ákveðið að stofna reikninga í skattaskjólum, þar með talið var stofnaður slíkur reikningur fyrir hæstv. ráðherra, hvort sem ráðherrann rekur minni til þess eður ei. Telur ráðherrann að notkun skattaskjóla sé réttmæt leið til að flytja fjármuni eða fela fjármuni?

Hver er stefna og áætlun hæstv. ráðherra varðandi skattaskjól? Er möguleiki á að Ísland muni ætla sér að gefa einhvers konar fordæmi eða taka sérstöðu varðandi það að banna slíka gjörninga? Ef ekki, af hverju? Ef svo er, hvernig á að gera það að mati ráðherrans? Síðan langaði mig að spyrja hæstv. ráðherra hver skýring hans sé á því að þeir sem hafa verið skráðir fyrir svona félögum sem hafa verið spurðir, allir þeir sem rætt hefur verið við, segjast ekki vita til þess að þeir hafi átt svona félög en þeir viti til þess að þeir hafi greitt alla skatta og gjöld samkvæmt reglum af einhverjum reikningum sem þeir vissu ekki að þeir ættu til. (Forseti hringir.) Hvernig er það hægt, hæstv. ráðherra?