145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

fjármögnun heilbrigðiskerfisins.

[14:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er spurt: Hversu mikið fé ætlar ráðherrann að setja inn í heilsugæsluna og ætlar ráðherrann að tryggja fé í hitt og þetta? Ég hef alltaf verið talsmaður þess að þingið hafi lokaorðið í þessum efnum. Ég ætla sem ráðherra ekki að undanskilja mig ábyrgð á tillögugerð í þessum málum. Alls ekki. Þingið á, hefur og verður alltaf að eiga síðasta orðið í því með hvaða hætti við fjármögnum þá þætti sem heyra undir okkar ágætu starfsemi. Það er bara þannig.

Þegar því er lýst yfir að ekki sé hægt að leggja þetta á 120 þúsund manns leyfi ég mér að efast um að sú fullyrðing standist. Þess vegna vil ég álykta á móti: Í þessum hópi 120 þúsund einstaklinga sem kunna að lenda í einhverjum kostnaði er fólk sem getur alveg borið meiri kostnað. (Gripið fram í.) Það eru alveg hreinar línur.

Ég er alveg (Forseti hringir.) fyllilega meðvitaður um að í þeim hópi sem við léttum álögum af, af þessum 10–12 þúsund manns og 40 þúsund barnafjölskyldum, er fullt af fólki sem ekki hefur efni á því að búa við óbreytt kerfi deginum lengur.