145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

[14:06]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég er á sömu slóðum og sá þingmaður sem hér var á undan mér. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um nýja frumvarpið hans um greiðsluþátttöku sjúklinga. Ég vil þó segja til að byrja með að mér finnst mikilvægt og ég held að okkur öllum þyki það að hafa jafnræði milli sjúklinga og sjúklingahópa í greiðsluþátttöku. Það er mikilvægt prinsipp og auðvitað eigum við að vinna að því. Hins vegar er það betra prinsipp og betra mál, finnst mér, að segja sem svo að heilbrigðisþjónusta eigi svo sannarlega að vera ókeypis á Íslandi eins og við erum oft að skreyta okkur með. En það er ekki þannig, því miður. Við erum komin frá því.

Kostnaður er hár eftir mismunandi sjúkdómum og það höfum við farið í gegnum. Þess vegna er hæstv. ráðherra væntanlega að leggja fram frumvarp sitt og það er ágætt. En þurfum við samt ekki að staldra aðeins við og horfa til baka og rýna það hvaða sjúkdómar það eru sem kosta einfaldlega meira að vera með? Það er krabbamein og sú meðferð sem sjúklingur þarf að gangast undir og fær að gangast undir, aðallega á Landspítalanum. Þar hefur kostnaðurinn hækkað alveg rosalega á síðustu árum. Það er í grunninn vegna þess, er það ekki, að Landspítalinn hefur þurft að spila úr pening sem hefur verið lítill og alltaf minni og minni og þá hefur skipulagið verið svoleiðis að fólk með krabbamein er síður skráð inn, það er sett á dagdeildir. Þá borgar það meira. Er það ekki vandamálið sem þarf að leysa frekar en að fara í einhverja allsherjarkerfisbreytingu? Ég bara spyr mig að þessu. (Forseti hringir.) Ég ætla ekkert að loka fyrir það að við getum ekki skoðað þetta. En aðalvandamálið er það að LSH hefur þurft að hækka álögur (Forseti hringir.) á sína sjúklinga. Skoðum það þá fyrst og fremst. Þegar hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra segir að þingið ákveði fjárheimildir þá treysti ég á að hæstv. ráðherra sé sá sem helst berst fyrir fjármagni (Forseti hringir.) í þetta.