145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

[14:11]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil bara að við kryfjum þetta mál aðeins betur. Í grunninn þykir mér hugmynd hæstv. ráðherra góð um kerfisbreytingu í þessum efnum. En kíkjum aðeins á það hvað liggur þarna til grundvallar. Ef það er þannig sem mig grunar að mesti kostnaðurinn sé í þessum sjúkdómum eða hjá þeim sem eru svo óheppnir að greinast með krabbamein og fá sína þjónustu mestmegnis á Landspítalanum og hún er farin að kosta svona mikið, er það ekki þá vandamálið sem við þurfum að eiga við og leysa? Það gefur augaleið, og það erum við alltaf eða næstum því á hverjum einasta degi að ræða í þessum sal, að heilbrigðiskerfið þarf meira fjármagn. Hæstv. ráðherra segir ítrekað, bæði í svörum við mig og þann þingmann sem talaði á undan, að þingið fari með fjárheimildirnar. Það er (Forseti hringir.) stjórnarmeirihlutinn sem fer með þessar fjárheimildir. Það er hæstv. ráðherra sem situr í ríkisstjórn og (Forseti hringir.) ég treysti á að hann vinni sína vinnu hvað það varðar.