145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

[14:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar hér er rætt um að kryfja málin betur þá hófst vinnan við að undirbúa þessar breytingar árið 2007 og þingið eða löggjafinn og framkvæmdarvaldið er búið að velta því á undan sér allan þann tíma að gera þá réttarbót fyrir okkar veikasta fólk sem felst í þessu frumvarpi. Það er löngu tímabært í mínum huga að gera þarfar breytingar á þessu kerfi. Ef þingið er að ræða það, ef hv. þingmaður er að ræða það að fresta afgreiðslu á þessu máli, er það sjónarmið út af fyrir sig. Ég er ekki talsmaður þess. (BjÓ: Ég er það ekki …) Gott að heyra að hv. þingmaður er ekki talsmaður þess. Ég tel að við eigum að koma þessari kerfisbreytingu á. Síðan eigum við að leggja í þá vinnu að reyna að draga inn í þetta enn frekari fjármuni ef mönnum þykja þökin of há og ef vilji er til þess að taka einhverja fleiri þætti undir greiðsluþökin þá er sjálfsagt að ræða það. En grundvallaratriði í mínum huga núna er að þingið einbeiti sér að því að ná í gegn þeirri kerfisbreytingu sem felst í frumvarpinu eins og það liggur fyrir í dag.