145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

staða Mývatns og frárennslismála.

[14:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um stöðu frárennslismála hjá sveitarfélögunum með sérstakri áherslu á stöðuna í Skútustaðahreppi og ástand lífríkis Mývatns. Ég hreyfði við hliðstæðu máli á þingi í nóvember 2014 og spurði þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, núverandi hæstv. forsætisráðherra, út í mjög hliðstæða hluti hvað varðaði stöðu frárennslismála á náttúruverndarsvæðum og mögulega aðkomu ríkisins að því að aðstoða sveitarfélög við úrlausn mála.

Hæstv. ráðherra svaraði því m.a. til að nefnd hefði hafið störf um að endurskoða reglugerð um fráveitumál og að til stæði að setja í gang úttekt á innstreymi næringarefna í þessi tvö einstöku stöðuvötn, Mývatn og Þingvallavatn. Þær úttektir hafa nú litið dagsins ljós í skýrslu og er það vel en af störfum nefndarinnar um endurskoðun reglugerðarinnar hef ég ekkert heyrt.

Nú eru málefni Mývatns mjög í brennidepli. Skútustaðahreppur hefur undanfarin missiri leitað stuðnings ríkisvaldsins við að hefjast handa um úrbætur til að uppfylla hertar reglur um fráveitumál og þriggja þrepa hreinsun sem eðli málsins samkvæmt er gerð krafa um á bökkum vatnsins. Ætlunin er að byrja á fyrsta áfanga sem er þéttbýlið í Reykjahlíð og hótelin í Reynihlíð og Reykjahlíð. Sá áfangi einn kostar 250–330 millj. kr. og er augljóslega ofviða fámennu sveitarfélagi sem þar á ofan þarf að horfast í augu við 6–10 millj. kr. rekstrarkostnað þegar framkvæmdin verður komin í gagnið þannig að lágmark er að ríkið komi þarna til móts við sveitarfélagið eins og það hefur ríkar skyldur til.

Okkur berast núna neyðarköll vegna ástandsins í Mývatni og Laxá frá Veiðifélagi Laxár og Krákár, frá Fjöreggi, félagsskap heimamanna um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, og frá Landvernd. Umhverfisstofnun hefur haft Mývatn á válista sínum, rauðlistað, samfellt síðastliðin fjögur ár. Þannig er staðan.

Í lífríki vatnsins er nánast algert hrun. Bleikjustofninn er hruninn, hornsílastofninn er hruninn, kúluskíturinn er horfinn af botni vatnsins og vöxtur blágerla, þ.e. blágrænna baktería, verður æ meira áberandi í vatninu á hverju ári þannig að það verður ekki tært yfir sumartímann sem aftur hindrar sólarljósið niður á botninn og stöðvar vöxt þar.

Vissulega eru náttúrulegar sveiflur þekktar í lífríki Mývatns en það sem nú er að gerast og hefur verið að teiknast upp síðustu árin, jafnvel áratugina, er nýtt af nálinni. Svona hrun, samfellt og langvarandi, hafa menn ekki séð áður. Óháð því hversu stór þáttur umsvif mannsins á vatnsbökkunum, bæði búsetunnar og ferðaþjónustunnar sem vex hratt ár frá ári, eru í stöðunni í Mývatni verður að koma frárennslismálum þar í ásættanlegt horf. Annað er ekki boðlegt í návígi við þessa miklu náttúruperlu. Það er þáttur mannsins sem við getum haft bein áhrif á.

Því hef ég leyft mér að spyrja hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra:

1. Er ráðherra sammála því að ríkið hafi skyldum að gegna vegna náttúru og lífríkis Mývatns og Laxár, samanber sérstök lög þar um og náttúruvernd og friðun á þeim grundvelli, samanber Ramsar-sáttmálann og að þetta er eitt af þeim svæðum sem Ísland hefur tilnefnt og skuldbundið sig til að vernda sérstaklega á grundvelli þess sáttmála, samanber vatnsverndartilskipun o.fl.?

2. Hyggst ríkið koma að lausn frárennslismála í Skútustaðahreppi með beinum fjárframlögum? Ef svo er, hvenær og í hve ríkum mæli?

Mitt mat er að það sé lágmark að ríkið leggi til helming stofnkostnaðarins við hina nýju fráveitu, 150–170 millj. kr. Þá ættu að vera möguleikar á að heimamenn gætu í samstarfi við notendur klofið afganginn og tekist á við rekstrarkostnaðinn í framhaldinu.

Víðar en þarna er ástandinu áfátt og ég spyr áfram.

3. Er í vændum átak af hálfu ríkisins til að aðstoða sveitarfélög almennt við að koma frárennslismálum í viðeigandi horf? Yrði þá gerður greinarmunur á sveitarfélögum sem taka til friðlýstra svæða, svo sem Skútustaðahrepps og Bláskógabyggðar, í öðru lagi landluktra sveitarfélaga sem eru í mun erfiðari stöðu en þau sem hafa aðgang að sjó og í þriðja lagi sveitarfélaga almennt?

4. Hyggst ráðherra og ríkisstjórn beita sér fyrir því, sem er líka rík þörf fyrir, að efla rannsóknir á svæðinu, úrvinnslu rannsóknargagna sem liggja fyrir í löngum seríum en ekki hefur verið mannafli eða fjármunir til að vinna úr (Forseti hringir.) og svo vöktun svæðisins?