145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

staða Mývatns og frárennslismála.

[14:29]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Það er öllum nokkuð augljóst að staða Mývatns er grafalvarleg og þarf að taka hraustlega til og fara í sérstakar aðgerðir ekki einungis til þess að koma í veg fyrir að illa fari heldur til að snúa við þróun sem er löngu komin af stað. Það verður að gera myndarlega. Við verðum að gera það með samstarfi eða alla vega þátttöku bæði sveitarfélagsins, sem er fámennt og vanmáttugt að mörgu leyti, og ríkisins. Ég hvet hæstv. umhverfisráðherra til dáða þegar þar að kemur.

En þetta er líka enn einn kaflinn í mjög sorglegri sögu okkar, ekki síst þegar kemur að umhverfismálum, að við tökum aldrei á málunum fyrr en allt er komið í óefni. Í nokkra áratugi er búið að vera að vara við þessari þróun í sambandi við uppbyggingu í kringum vatnið, í sambandi við kísilnámið o.s.frv., en einhvern veginn hefur alltaf verið skellt við skollaeyrum og sagt: Þetta virðist nú allt vera í lagi, það er enn þá vatn þarna, þangað til allt er komið í rugl.

Það er hugsunarháttur sem við getum ekki leyft okkur í umhverfismálum, sérstaklega ekki hér á norðurhjara þar sem við búum við mjög viðkvæma náttúru sem á erfitt með að ná sér aftur á strik. Við þekkjum að skemmdir á náttúru á Íslandi geta verið nokkra áratugi eða aldir að laga sig af sjálfsdáðum, sem gerist á færri árum annars staðar. Þetta er víti til varnaðar. Við eigum að leggja verulega (Forseti hringir.) á okkur til þess að gera allt sem í okkar valdi stendur til að bjarga þessari mikilvægu perlu (Forseti hringir.) íslenskrar náttúru og íslenskrar þjóðar, en við eigum (Forseti hringir.) líka að læra af þessu og horfa til lengri tíma þegar kemur að náttúrunni.