145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

staða Mývatns og frárennslismála.

[14:37]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir umræðuna. Nokkur atriði til viðbótar við þau sem hér hafa verið nefnd. Í fyrsta lagi liggur náttúrlega fyrir að þarna hefur verið innstreymi næringarefna í vatnið um langt skeið. Það er ákveðið álag á vatnið af mannavöldum. Við vitum ekki að hve miklu leyti því er um að kenna þegar ástand vatnsins er skoðað. Hins vegar er það svo að í nýjum náttúruverndarlögum sem við samþykktum í vetur kemur fram í 9. gr., með leyfi forseta:

„Ef hætta er á alvarlegum eða óafturkræfum náttúruspjöllum skal skorti á vísindalegri þekkingu ekki beitt sem rökum til að fresta eða láta hjá líða að grípa til skilvirkra aðgerða sem geta komið í veg fyrir spjöllin eða dregið úr þeim.“

Þetta samþykktum við öll á Alþingi Íslendinga í vetur sem leið, þ.e. varúðarregluna samkvæmt Ríó-yfirlýsingunni. Þessi regla segir að við getum ekki skákað í því skjóli að við vitum ekki hversu mikið er um að kenna sambúðinni við manninn, að hve miklu leyti er um að ræða náttúrulegar sveiflur o.s.frv. Okkur ber að grípa inn í og okkur ber að láta náttúruna njóta vafans. Og ég vil biðja hæstv. ráðherra að segja nokkur orð um þessi mál í lok þessarar umræðu, þ.e. hvort við séum ekki alveg sammála um að nýsamþykkt náttúruverndarlög skeri úr um okkar skyldu gagnvart vatninu þegar þetta ástand blasir við.

Svo vil ég segja varðandi yfirstandandi virkjunarframkvæmdir við Þeistareyki og í Bjarnarflagi þar sem verið er að bora, að við vitum líka að þar gæti verið um áhrif að ræða. Ég velti því upp hvort við þurfum ekki að skoða þau mál enn frekar með hliðsjón af hagsmunum vatnsins.