145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

staða Mývatns og frárennslismála.

[14:41]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta mál sýnir okkur vanda íslenskrar ferðaþjónustu í hnotskurn, þ.e. hvað af getur hlotist þegar magn ógnar gæðum og þegar framtíðarsýn og langtímaáætlanir skortir.

Ísland er ein stór og viðkvæm náttúruperla sem hentar ekki fyrir þá fjöldaferðamennsku sem virðist vera hérna alls ráðandi. Það er áhyggjuefni og þess vegna er þetta Mývatnsmál stefnukrefjandi mál sem vekur okkur til alvarlegrar umhugsunar um samvist atvinnulífs og umhverfis. En líka um það hvernig ábyrgð þarf að fylgja valdi.

Lítil sveitarfélög hafa vald til að taka afdrifaríkar ákvarðanir fyrir umhverfi og náttúru. Þau geta leyft umfangsmikla atvinnustarfsemi án þess að hafa það bolmagn sem þarf til að mæta afleiðingunum fyrir umhverfið og náttúrugæðin.

Auðvitað er það umhugsunarefni og vekur þá hugrenningar um hvort ekki sé tímabært að auka tekjumöguleika sveitarfélaganna, t.d. gjaldtökuheimildir þeirra í sambandi við ferðaþjónustuna þannig að þau rísi undir því að geta nýtt sér þá möguleika sem í henni felast.

Nú væri gott að eiga auðlindasjóð sem í rynni arður af ferðaþjónustunni. En það hafa menn ekki haft hugrekki til þess að gera enn sem komið er þó að sú umræða hafi verið hávær um alllangt skeið hér í þingsölum.

Auðvitað hlýtur ábyrgð ríkisins að vera einhver þegar um er að ræða stað eins og Mývatn. En þá er líka spurning: Hvernig kemur ríkið best að málum? Er það með fjármagni? Er það með því að opna tekjulindir fyrir sveitarfélögin eða með annarri löggjöf, breytingum á skipulagslöggjöf (Forseti hringir.) og annarri stefnumótun sem sveitarfélögin geta þá nýtt sér?

Auðvitað væri farsælast að margir aðilar gætu tekið höndum saman um að leysa þetta mál, (Forseti hringir.) en ljóst er að aðgerðir hvað Mývatn varðar geta ekki beðið. (Forseti hringir.) Það hafa sérfræðingar sagt. Það þarf að stöðva strax þetta fosfórrennsli í vatnið.