145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

staða Mývatns og frárennslismála.

[14:44]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég er ánægð með að þetta mál komi með svo afgerandi hætti inn í þingið og í umhverfis- og samgöngunefnd og eins að hæstv. ráðherra sé með málefnið á sínu borði.

Ég get svo sem bara tekið undir allt sem sagt hefur verið í fyrri ræðum. Það er brýnt að fara í frárennslismálin. Því fylgir kostnaður og við höfum heyrt það, þingmenn kjördæmisins, að sveitarfélagið telur sig ekki hafa bolmagn til að fara í þær aðgerðir án aðstoðar frá ríki.

Mér skilst að einhvern tíma hafi ríkið aðstoðað einhver sveitarfélög í sama vanda. Það væri rétt að skoða þau fordæmi. Ég treysti því að ráðherra eða nefndin geri það.

Við vitum að ekki er allt af mannavöldum sem er í gangi við Mývatn. Vandinn getur verið af ýmsum toga og í mjög viðkvæmu lífríki getur verið að ágangur mannsins sé kornið sem fyllir mælinn. Það er mjög mikilvægt að við tryggjum að við séum ekki að auka á vandann með því sem við getum haft stjórn á.

Mér finnst alveg hræðilega sorglegt að kúluskíturinn sé horfinn úr vatninu. Það var alveg einstakt fyrirbæri. Ég held að þetta náttúrufyrirbæri sé nú bara til í Japan. Einhvern veginn horfðum við á kúluskítinn hverfa úr Mývatni. Kannski gátum við ekkert gert í því, ég veit það ekki. En við getum alla vega gripið til aðgerða núna.

Ég er sammála því að við þurfum ekki að kenna einhverjum um. Þetta gerðist bara. En lærum af þessu og grípum til aðgerða núna. Ég treysti því að umhverfisráðherra geri allt sem hún getur til þess að tryggja að lífríki Mývatns sé eins gott og hugsast getur. Ef eitthvað þarf að ýta á fjármálaráðherra hljótum við að geta lagt hæstv. ráðherra lið í því efni.