145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

staða Mývatns og frárennslismála.

[14:48]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þetta hafa verið mjög góðar umræður og ég vil hvetja hæstv. umhverfisráðherra til dáða og skora á ráðherrann að ganga ákveðin til verks því að málið getur ekki beðið. Það er bara þannig.

Ef við finnum okkur afsakanir eins og ráðherrann gerir, sem lætur á einhvern torkennilegan hátt eins og hún sé ekki í ríkisstjórn með fjármálaráðherra — auðvitað á það að vera þannig að ef þau vinna saman í ríkisstjórn þá ræðir umhverfisráðherra við fjármálaráðherra um að finna lausnir á málinu. Það á í raun ekki að vera í verkahring þingsins.

Ef umhverfisráðherra er mikið í mun að finna lausnir á málinu tafarlaust þá beinir hún sjálf tilmælum sínum til fjármálaráðherra um að tekið verði á því tafarlaust. Það er nú bara þannig.

Síðan fannst mér dálítið furðulegt þegar ég heyrði viðtal við hæstv. ráðherra um þessi mál og m.a. áskorun Landverndar. Maður hefði haldið að umhverfisráðherra fagnaði því innilega að þau skyldu benda á og þrýsta á að eitthvað yrði gert í málunum, að hún mundi hlusta vel og vandlega og vinna náið með umhverfisverndarsamtökum í staðinn fyrir að hnýta í þau.

Mér finnst það eiginlega bara skammarlegt, ég verð að segja alveg eins og er. Það er ekki í boði að umhverfisráðherra hnýti í ein öflugustu umhverfissamtök landsins. Ég mundi frekar rétta fram höndina og vinna með þeim sem hlúa að landinu okkar nótt sem nýtan dag. Það á umhverfisráðherra að gera af einlægni og einurð.

Síðan verð ég að segja að það er alveg ljóst eftir þessar umræður í dag að það er þverpólitískur vilji til þess að taka á þessu máli. Og nú ætti umhverfisráðherra að fara inn í sitt ráðuneyti og inn á ríkisráðsfund og krefjast þess að fjármunir til verksins verði settir í það tafarlaust.