145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

öryggi ferðamanna.

[15:00]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Öryggi ferðamanna er eitt af þeim verkefnum sem eru í algjörum forgangi og hafa verið hjá stjórnvöldum sem og á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála frá því að hún var sett á laggirnar. Öryggismálin eru kannski skýrasta dæmið um verkefni sem vinnast best á slíkum vettvangi þar sem allir aðilar máls koma saman og verkefnin eru unnin í breiðu samstarfi. Það vekur athygli að hv. málshefjandi beinir þessari umræðu til mín en mér heyrðist á fyrirspurnum málshefjanda að kannski hefði verið réttara að beina þeim mörgum til hæstv. innanríkisráðherra sem fer með vegamál og samgöngumál og ber ábyrgð á þeirri stefnumótun sem í fjármálaáætluninni kemur fram.

Ég ætla að ræða þetta út frá ferðaþjónustunni og því sem að mér snýr. Ég þakka fyrir þessa þörfu umræðu en þegar við tökum svona umræðu verðum við að fara rétt með staðreyndir. Þegar því er haldið fram að slysatíðni ferðamanna sé að aukast, eins og hv. þingmaður gerði áðan, er það einfaldlega rangt. Samkvæmt upplýsingum og tölum frá Landsbjörgu létust á árunum 1998–2010 að jafnaði í slysum á ári fimm ferðamenn af hverjum 100 þúsund sem hingað komu. Á árunum 2013–2015 hefur hlutfall ferðamanna sem láta lífið í banaslysum lækkað úr fimm í einn á hverja 100 þús. ferðamenn. Staðreyndin er sem sagt sú að slysatíðni ferðamanna á Íslandi er vel undir meðaltali landanna í kringum okkur. Við höfum náð miklum árangri á síðustu árum þó að við eigum að sjálfsögðu alltaf að gera betur og stefna hærra.

Það er mikilvægt að hafa í huga að öryggismál ferðamanna eru langhlaup og einn allra mikilvægasti þátturinn er að vinna vel í forvörnum. Ráðuneyti mitt hefur til að mynda byggt upp farsælt samstarf við Landsbjörgu, Samtök ferðaþjónustunnar o.fl. sem má rekja allt til ársins 2006. Samstarfið hefur snúið að rekstri hálendisvaktarinnar og frá árinu 2010 að verkefninu Safe Travel sem rekið er af Landsbjörgu. Lykillinn að þeim árangri sem ég nefndi áðan er markvissar forvarnir og upplýsingagjöf. Á síðasta ári heimsóttu til að mynda 500 þús. ferðamenn heimasíðu Safe Travel til að afla sér upplýsinga um aðstæður, veður og ábyrga ferðahegðun. Í hverjum mánuði skila á annað hundrað ferðamanna inn ferðaáætlunum sem skilar sér í fækkun útkalla og björgun mannslífa og hafa þessar tilkynningar lágmarkað kostnað við björgun og leit. Það má nefna sem dæmi um vel heppnaða aðgerð að ráðist var í að kortleggja sprungusvæði á jöklum og síðan kortin voru gefin út hafa engin alvarleg slys orðið á jöklum.

Á þessu kjörtímabili, af því að hér er rætt um innviði, hefur jafnframt verið lögð gríðarlega mikil áhersla á uppbyggingu ferðamannastaða, ekki síst með öryggi ferðamanna að leiðarljósi. Á þessu kjörtímabili hafa tæplega 2,5 milljarðar verið lagðir í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða á móti 650 milljónum á síðasta kjörtímabili. Þessum styrkveitingum er í vaxandi mæli beint að aðgerðum til að bæta öryggi ferðamanna og tryggja náttúruvernd.

Eins og hér hefur komið fram og ég þreytist ekki á að nefna er það ekki í höndum eins ráðherra að tryggja þær aðgerðir sem skila árangri hvað varðar þessa atvinnugrein. Fyrstu skrefin í átt til bættra vinnubragða á þessu sviði voru stigin nýverið þegar ríkisstjórnin samþykkti tillögur sem unnið hefur verið að í Stjórnstöð ferðamála í víðtæku samráði við ráðuneyti, lögreglu, Landsbjörgu, þjóðgarðana, umhverfisstofnanir, Samgöngustofu, rannsóknarnefnd samgönguslysa, leiðsögumenn, SAF og Ferðamálastofu svo einhverjir séu nefndir. Það er þannig sem við verðum að vinna hlutina.

Ríkisstjórnin fól svo viðkomandi ráðherrum að setja tillögurnar í forgang og ég get fullvissað hv. þingmann um að þær eru allar komnar af stað og unnið er að þeim. Til að mynda má nefna að í mínu ráðuneyti hefur í samvinnu við Framkvæmdasjóð ferðamannastaða þegar verið farið af stað með brýnar úrbætur á 24 ferðamannastöðum, ýmis verkefni sem lúta að bættri upplýsingagjöf heyra líka undir mig og eru komin í framkvæmd, landvörðum verður fjölgað á vegum umhverfisráðherra og aukið öryggi á vegum landsins, sem er auðvitað risavaxið verkefni og snýr ekki bara að ferðamönnum heldur landsmönnum öllum. Það er komið af stað í innanríkisráðuneytinu sem og skipulag á bættri (Forseti hringir.) löggæslu fyrir sumarið og svo mætti lengi telja. Stefnan sem hv. þingmaður kallaði eftir hefur nefnilega verið mörkuð í Vegvísi í ferðaþjónustu og með verkfærinu Stjórnstöð ferðamála erum við komin á þann stað að við vitum hvert við eigum að fara og hvernig við ætlum þangað.