145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

öryggi ferðamanna.

[15:09]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það liggur fyrir að með auknum ferðamannastraumi til landsins eykst álag á alla innviði samfélagsins. Það álag hefur stigmagnast undanfarin ár og kallar vissulega á viðbrögð. Vegakerfi landsins stenst engan veginn aukinn umferðarþunga þar sem ástandi þess hefur um of langt árabil farið hrakandi. Þá hafa auknar kröfur um þjónustu á vegum landsins aukist, bæði hjá okkur sjálfum og þeim sem þjónusta ferðamenn.

Ég sé ekki annað en að við verðum að bæta verulega í þegar kemur að viðhaldi og uppbyggingu vegakerfisins. Þess vegna er afar mikilvægt að við samþykkjum þá samgönguáætlun sem liggur fyrir til að koma verkefnum áfram. Síðan þarf að nýta það svigrúm sem skapast hefur með bættum fjárhag ríkissjóðs og gefa verulega í.

Eins og hér hefur verið tíundað hefur hið opinbera komið ýmsum þörfum verkefnum af stað til að bæta öryggi ferðamanna og sett rúmlega 2.300 milljónir í málaflokkinn. Að þeirri vinnu koma margir aðilar og það er vel.

Margir koma að því að þjónusta ferðamenn og misjafnlega er að því staðið. Í liðinni viku ók ég fram á skelfingu lostna ferðamenn uppi á Háreksstaðaleið. Ung hjón voru stopp á framhjóladrifnum bíl á sumardekkjum. Á fjöllunum var vetrarveður og færð eftir því. Sem betur fer gat ég snúið bílnum fyrir fólkið og leiðbeint því til byggða. Því miður er þetta ekki eina sagan sem segja má í þessum dúr því að það er staðreynd að einhverjar bílaleigur beina ferðamönnum á vegi landsins á vanbúnum farartækjum. Ég get ekki ímyndað mér að þessir ferðalangar beri landinu góða sögu frekar en margir aðrir sem setið hafa fastir á litlum, hvítum bílum í háarenningi og ófærð á vegum landsins. Því miður skemma einstaka fyrirtæki fyrir þeim sem gera vel.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort einhver úrræði séu til í verkfærakistunni svo stoppa megi fúskara sem virðast leggja meiri áherslu á gróða en öryggismál.