145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

öryggi ferðamanna.

[15:13]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög áhugaverð umræða og ég þakka málshefjanda kærlega fyrir að vekja athygli á málinu. Það er eitt sem ber að hafa í huga þegar við tölum um fjölda ferðamanna sem látast af slysförum á för sinni um landið og það er að aldrei hafa jafn margir ferðamenn verið hér á landi. Þetta hefur stigmagnast á undanförnum þremur til fjórum árum þannig að tal um hlutfallstölur er í raun ekki neitt sem skiptir máli þannig lagað séð. Síðasta ár var eitt það hræðilegasta í umferðinni fyrir ferðamenn. Aldrei hafa jafn margir ferðamenn látist. Á móti kemur að aldrei hafa jafn margir ferðamenn komið til Íslands og á síðasta ári.

Við erum ekki bara að tala um banaslys heldur líka handleggsbrot, fótbrot, tognanir og fleira í þeim dúr sem ferðamenn verða fyrir. Það er mikilvægt að við reynum að ná betur til ferðamanna sem koma hingað til lands. Ég veit af samtölum mínum við sendiherra ýmissa landa sem eru á Íslandi að þeir hafa miklar áhyggjur af stöðu mála hér fyrir ferðamenn. Margir koma til þeirra til að leita eftir upplýsingum um ýmislegt. Ég held og trúi að hægt væri að fara í miklu nánara samstarf með sendiherraskrifstofum hér á landi til þess að þýða það efni sem er t.d. á, með leyfi forseta, Iceland Academy sem er framleitt af Promote Iceland sem er svokallað „public private partnership“, ég er ekki með gott íslenskt orð yfir það. Það er m.a. með fjárstuðningi ríkisins. 15 þús. jákvæðir komu til Íslands á síðasta ári og nú er búist við mun fleirum hér á landi sem ég trúi vel. Hið sama á t.d. við um Kínverja, Þjóðverja og Frakka, sendiherraskrifstofur þeirra væru alveg til í að þýða Iceland Academy til að ná betur til þessara ferðamanna. Ég held að það sé mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að sú umræða sé hafin. Ekki tala allir ferðamenn ensku en við þurfum að reyna að ná til þeirra allra.